Lúðvíkshúsi komið fyrir á nýjum stað

Elsta húsi Neskaupstaðar, Lúðvíkshús, var komið fyrir á nýjum stað við götuna Þiljuvelli í gær. Framundan er að gera upp þetta sögufræga hús.

„Þetta er elsta húsið sem er uppistandandi í bænum. Það var upphaflega reist af norskum síldveiðimanni, Ola Hansen, um 1880 á svokallaðri Strönd sem er innarlega í bænum,“ segir Smári Geirsson sem á sæti í stjórn hóps áhugafólks sem styður við endurgerð hússins.

Í lokaverkefni Rebekku Ránar Björnsdóttur, nemanda við Verkmenntaskóla Austurlands, um gömlu húsin í Neskaupstað segir að húsið hafi komið frá Noregi tilbúið til uppsetningar. Það hafi í fyrstu verið nýtt sem bæði síldarsöltunarhús og íbúðarhús Hansen, enda við hann kennt.

Árið 1884 keypti Sveinn Sigfússon húsið en hann var bæði fyrsti kaupmaðurinn á Nesi og fyrsti borgarinn þar. Hann flutti húsið einnig á Neseyri, þar sem það stóð þar til í gær.

Tíu árum síðar keypti séra Jón Guðmundsson, prestur og prófastur, húsið og bjó í því. Hann kom upp fyrstu póstafgreiðslunni á Nesi og starfaði við hana. „Í þessu húsi var fyrsta verslunin sem Norðfirðingur rak og líka fyrsti prestsbústaðurinn á Nesi,“ segir Smári.

Íbúðarhús til 1991

Aldamótaárið 1900 keypti Lúðvík Sigurðsson kaupmaður húsið. Við hann hefur húsið verið kennt þótt hann byggi þar aðeins í rúman áratug. Hann byggði sér þá annað hús skammt frá sem hlaut nafnið „Nýja Lúðvíkshús“ til aðgreiningar.

Lúðvíkshús var síðan nýtt sem íbúðarhús fram til ársins 1991, en það hefur staðið autt síðan. Áhugahópurinn um endurgerð þess var stofnaður árið 2009 og árið 2015 úthlutaði sveitarfélagið Fjarðabyggð, sem á húsið, því nýrri lóð við götuna Þiljuvelli.

Þar stendur það við hlið Þórsmerkur, annars sögufrægs húss sem hefur verið verndað og gegnir hlutverki listasmiðju. Hugmyndir hafa verið uppi að finna Lúðvíkshúsi sambærilegt hlutverk og hýsa þar fræði- og listamenn.

Lagað að utan í sumar

Í sumar stendur til að klæða þak og veggi hússins. Búið er að fjármagna flutning þess og endurnýjun að utan að fullu. Endurbætur innanhúss velta á fjármögnun sem er framundan. „Grunnviðir hússins eru í góði lagi en það þarf að endurnýja mjög margt í því,“ segir Smári.

Áhalda- og tækjaleiga Austurlands hélt utan um flutninginn í gær sem margir Norðfirðingar fylgdust með af miklum áhuga. Samkvæmt upplýsingum frá Fjarðabyggð gekk flutningurinn eins og best hefði verið á kosið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.