Loðnuleit haldið áfarm: Ljóst að vertíðin verður ekki merkileg úr þessu

Loðnuleit verður haldið áfram úti fyrir Austfjörðum næstu daga eftir að norsk skip fengu afla þar um helgina. Skip HB Granda fara til veiða um helgina en forstjóri fyrirtækisins segir ljóst að vertíðin verði ekki merkileg úr þessu.


„Loðnan virðist hafa verið djúpt en kom síðan upp og varð veiðanleg. Norsku skipstjórarnir segja að þetta líti mjög vel út og hún sé þétt. Þeirra skip hafa veitt 30 þúsund tonn á fimm dögum.

Eftir fundi í ráðuneytinu í gærmorgun var farið þess á leit við Hafrannsóknastofnun að halda mælingunni, sem átti að ljúka í fyrradag, áfram og skip hennar fari aftur yfir svæðið með von um að það finnist meira magn.“

Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra á fjölmennum íbúafundi um atvinnumál á Vopnafirði í gærkvöldi. Rannsóknarskiptin Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson voru í morgun stödd austsuðaustur af Djúpavogi á meðan um tugur norskra loðnuveiðiskipa var úti fyrir Mið-Austfjörðum.

Öll loðna Granda til Vopnafjarðar

En þótt áfram sé leitað er hæpið að úr loðnuvertíðinni rætist úr þessu. „Það er komið fram í miðjan febrúar og ljóst að ekki verður um merkilega loðnuvertíð að ræða úr þessu. Þótt skip Hafró séu enn að minnka möguleikarnir á viðbót með hverjum degi,“ sagði Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda á fundinum.

Venus NS lá þar við bryggju í gærkvöldi en hann sækir veiðarfæri á næstu dögum og heldur til veiða eftir helgi. Félagið hefur um 18 þúsund tonna loðnuveiðikvóta til ráðstöfunar en hefur ekki hafið veiðar þótt veiðitímabilið sé um það bil hálfnað.

Hrognin eru verðmætasta afurðin og gefast þau seinni hluta tímabilsins. Í fyrra voru unnin 4500 tonn af hrognum úr 34 þúsund tonnum af loðnu hjá Granda, mest á Akranesi enda næst hrygningarstöðvunum.

Vilhjálmur tilkynnti hins vegar á fundinum að stjórn félagsins hefði ákveðið að verði ekki aukið við loðnukvótann verði allri þeirri loðnu sem skip félagsins veiða landað á Vopnafirði.

Áhrif Rússabannsins

Vertíðin nú veldur vonbrigðum þar sem mælingar á ungloðnu haustið 2014 byggðu upp væntingar um að hún yrði góð. Ástandið er heldur ekki bjart framundan en Sigurður Ingi skýrði frá því í gær að upphafskvóti næsta fiskveiðiárs yrði væntanlega enginn þar sem mælingar á ungloðnunni í haust hefðu komið illa út.

Til að bæta gráu ofan á svart fæst minna fyrir frysta loðnu en áður vegna innflutningsbanns Rússa sem borguðu áður besta verðið. „Efnahagsástandið í Rússlandi var að batna og við vorum orðin bjartsýn á markaðinn þegar bannið skall á. Það kom stjórnvöldum og okkur á óvart. Stuðningur við það var mikill og hagmunir okkar og sjávarbyggða máttu sín lítils.“

Sigurður Ingi kvaðst vonast til þess að bannið myndi ekki vara að eilífu en varaði við að treyst yrði aftur á Rússlandsmarkað. „Ástandið þar er að versna og kaupmáttur að minnka, meðal annars vegna áhrifa viðskiptaþvingana.“

Náttúrulegar aðstæður

Ráðherrann varaði einnig við aðstæðum í hafinu þar sem fisktegundir væru að færa sig norðar á bóginn vegna hlýnunar jarðar. Það hefði áhrif á fleiri svæði en Ísland.

HB Grandi tilkynnti í gærkvöldi um að fyrirtækið hygðist byggja upp bolfiskvinnslu þar sem taka á til starfa í haust til að mæta sveiflum í uppsjávarveiðum. Með dapra loðnuvertíð var útlit fyrir að lítil atvinna yrði á staðnum frá lokum síldarvertíðar í nóvember fram að veiðum á makríl og síld í lok sumars.

Atvinnulífið á Vopnafirði byggir á umsvifum HB Granda. Samkvæmt tölum sem Vilhjálmur sýndi í gær eru 80 af 674 skráðum íbúum hreppsins fastráðnir hjá fyrirtækinu sem skaffar alls um 120 ársverk. Launagreiðslur, viðskipti við fyrirtæki á staðnum og beinar greiðslur fyrir þjónustu sveitarfélagsins námu í fyrra um 1200 milljónum króna.

Loðnan er hins vegar ekki eini fiskurinn sem áhyggjur eru af. Treyst hefur verið á Rússlandsmarkað með makrílafurðir en hann er sem fyrr segir lokaður. Þá sagði Vilhjálmur að í ofveiði stefndi á makríl og kolmunna þar sem ósamið væri um veiði við nágrannaþjóðir. „Hún leiðir að lokum til hruns.“

Þá hafa síldveiðar dregist verulega saman. Árið 2008 var landað um 50 þúsund tonnum á Vopnafirði en þau voru aðeins 15 þúsund í fyrra. „Síðustu fréttir frá Hafró gefa ekki tilefni til bjartsýni. Það vantar helming upp á að mælingar standi undir væntingum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.