Límt yfir vegvísa sem vísa á Egilsstaði um Breiðdalsheiði

Vegagerðin hefur brugðið á það ráð að líma yfir vegvísa við Breiðdalsvík sem vísa á Egilsstaði eða Seyðisfjörð um Breiðdalsheiði. Svæðisstjóri segir þetta tilraun til að vísa ferðamönnum rétta leið í vetrarfærðinni.


„Það hefur mikið verið kvartað um að ekki sé nógu vel merkt til að fyrirbyggja að vegfarendur fari inn Breiðdal þegar leiðin er lokuð, þrátt fyrir að merki sé innan við Suðurfjarðavegamótin um að ekki sé vetrarþjónusta á Breiðdalheiði og leiðin sé lokuð.

Til að upplýsa betur vegfarendur var því ákveðið að líma til reynslu yfir staðarheitin á vegvísunum þegar Breiðdalsheiði er lokuð til að reyna að fyrirbyggja að vegfarendur á leið til Egilsstaða og Seyðisfjarðar beygi inn Breiðdalinn að óþörfu líkt og mörg dæmi eru um.“

Þetta segir Sveinn Sveinsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Reyðarfirði. Hann segir það hafa verið „viðvarandi vandamál á vetrum“ að vegfarendur, einkum erlendir ferðamenn fari inn Breiðdal þótt heiðin sé lokuð.

„Í mörgum tilfellum hefur verið farið jafnvel fram hjá lokunarhliði Vegagerðarinnar inn við Breiðdalsheiði og þurft að bjarga þar vegfarendum í framhaldinu.“

Eftir kvartanir frá bæði ferðaþjónustuaðilum og ferðamönnum hafi verið reynt að bæta merkingum, meðal annars með að líma yfir vegvísana. Við Egilsstaði og í Berufirði eru síðan skilti sem miðla upplýsingum um að ófært sé yfir Breiðdalsheiði og Öxi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.