Líkur á skerðingum á raforku næstu árin

Líkur eru á að áfram þurfi að skerða rafmagn til kaupenda skerðanlegrar orku, líkt og gert hefur verið frá því í desember. Afleiðingar þessu eru meðal annars að fiskimjölsverksmiðjur og fjarvarmaveitur á Austurlandi hafa brennt olíu. Mikilvægt er fyrir landið í heild að flutningskerfi raforku milli Austur- og Suðurlands verði styrkt.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu starfshóps um stöðu og áskoranir í orkumálum, með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, sem kynnt var í gær.

Umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra skipaði hópinn í janúar. Í skýrslu hans er að finna greiningu á stöðunni í raforkukerfinu og líklega þróun. Ein þeirra útfærslna sem liggur fyrir gerir ráð fyrir tvöföldun á raforkuframleiðslu til ársins 2050 til að öll áform um orkuskipti auk annarrar viðbótarframleiðslu gangi eftir. Aðrar sviðsmyndir í skýrslunni eru varfærnari, allt niður í enga aukningu.

450 GWst skerðing

Í desember var tilkynnt um skerðingu á orku til kaupenda skerðanlegrar orku. Fram kemur í skýrslunni að skerðingin frá janúar til apríl á þessu ári sé um 450 GWst, þar af 200 GWst til fiskimjölsverksmiðja. Fjarvarmaveita Fjarðabyggðar hefur líka verið keyrð á olíu síðustu vikur. Ekki hefur þurft að skerða rafmagn á þennan hátt síðustu sex ár en líkur eru taldar á sambærilegum skerðingum næstu ár.

Þar kemur einkum þrennt til. Í fyrsta lagi minni vatnsforði í miðlunarlónum virkjana á Suðurlandi, erfiðari sveiflujöfnun í framleiðslu þar sem aflnýting nálgist uppsett afl virkjana auk þess sem byggðalínan milli Norðausturlands og Suðurlands ráði ekki við vaxandi þörf. Haft er eftir bæði Landsvirkjun og Landsneti, auk ónefndra sveitarfélaga, að hafna hafi þurft fjölmörgum verkefnum síðustu misseri vegna stöðu flutningskerfisins og/eða skorts á raforku.

Tengja þarf landshlutana

Í umfjöllun um dreifikerfið, sem að mestu virðist byggja á upplýsingum frá Landsneti, kemur fram að lengi hafi lögð áhersla á betri tengingar milli helstu virkjanasvæða. Þorri byggðalínunnar sjálfrar er orðinn 40 ára, auk þess sem fjöldi tengivirkja er á svipuðum aldri.

Árangur hefur náðst með nýrri línu milli Kröflu og Fljótsdalsstöðvar en bæta þarf tengingar frá Blöndu suður í Hvalfjörð og úr Fljótsdal suður eftir. Í athugasemd Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra kemur fram að með endurnýjun raforkukerfisins frá Hvalfirði austur í Fljótdal sé unnt að tryggja raforkuöryggi í meginflutningskerfinu og minnka tap. Vandamálið sé Blöndulína 3, undirbúningur hennar hafi staðið lengi en lítið þokast sem leiði hugann að því hvort einfalda þurfi ákvarðanatökuferli.

Tengja á spennistöðina á Hryggstekk í Skriðdal við 200 kV línurnar milli Fljótsdals og Reyðarfjarðar árið 220. Þar með lendir öll almenn notkun milli Vopnafjarðar og Fáskrúðsfjarðar innan svæðis. Í fjórðungnum er einnig unnið að hringtengingu til að tryggja raforku til helstu byggðarlaga. Búið er að hringtengja Neskaupstað og Fáskrúðsfjörður er inni í framkvæmdaáætlun á næstu 4-8 árum. Seyðisfjörður og Vopnafjörður eru þar á eftir, nákvæm tímasetning liggur ekki fyrir en vinnunni á að vera lokið fyrir 2040 miðað við stefnu stjórnvalda.

Í skýrslunni er fjallað um möguleika til orkusparnaðar, meðal annars snjallnet sem búið er að koma upp á Austurlandi. Undir það fellur margvísleg samtvinnun tæknibúnaðar sem miðar að því að auka stöðugleika og hámarka raforkunýtingu. Búnaður til sjálfvirkrar útleysingar álags er hjá flestum stórnotendum í fjórðungnum og segir í skýrslunni að snjallnetið eystra hafi einkum aukið nýtingu og öryggi við aflstýringu til fiskimjölsverksmiðja.

Fjarðaál notar 90% orkunnar eystra

Í sérstakri umfjöllun um orkukerfið á Austurlandi kemur fram að Fjarðaál noti um 90% allrar orku á svæðinu. Er það ekki fjarri því sem tíðkast á landsvísu, málmbræðslur nota um 73% allrar orku, eða ríflega 14.000 GWst. Heimilin í landinu nota 5%, örlítið meira en gagnaverin sem nýta 4%.

Þar segir einnig að tækifæri séu í varmavinnslu eystra því bæði sé tæknilega mögulegt og fjárhagslega hagkvæmt að endurvinna varma frá kerskála Fjarðaáls. Talið er mögulegt að fá þar um 20 MW af varma. Sveitarstjórnarfólk á Austurlandi telur einnig möguleika í vinnslu lífeldsneytis á svæðinu.

Athygli vekur að ekkert er komið inn á hugmyndir um Orkugarð á Reyðarfirði, þótt nefndar séu slíkar hugmyndir úr öðrum landshlutum. Þó er á einum stað minnst á verkefni Landsvirkjunar og hafnaryfirvalda í Rotterdam um vetnisframleiðslu með rafgreiningu. Orkunotkun þar verði 200-400 MW fyrir árið 2030.

Að endingu má nefna að skýrslan skoðar stöðu varmaveita á landinu. Sérstaklega er minnst á fjarvarmaveitu, R/O veitu, á Seyðisfjörð sem sögð er vera að líða undir lok. Laga þurfi aðeins til í innanbæjarkerfinu verði bein rafhitun niðurstaðan til framtíðar. Þá segir að auka þurfi þekkingu á köldum svæðum, meðal annars með endurskoðun fyrirkomulags og fjármögnun jarðhitarannsókna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.