Liðsheildin orðin sterk í lokaæfingunni

„Meginmarkmið með æfingu sem þessari er að æfa flugslysaáætlun en hana má heimfæra á öll hópslys og því má segja að verið sé að efla hópslysaviðbragð í umdæminu,“ segir Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia, en hún stýrði flugslysaæfingu ISAVIA og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra sem haldin var á Egilsstöðum um helgina.


Elva segir að æfingin hafi gengið mjög vel en um 200 manns tóku þátt í henni. „Auðvitað komu upp ýmis lærdómsatriði sem einmitt er tilgangurinn með æfingum sem þessari. Æfingin var ætluð starfsfólki flugvalla, björgunarsveitum, sjálfboðaliðum Rauða krossins, lögreglu, slökkviliði, heilbrigðisstarfsfólki og fleirum. Aðalatriðið er að samhæfing allra þessara hópa sé í lagi og við sáum vel hve sterk liðsheildin var orðin í lokaæfingunni,“ segir Elva.

Elva segir að mjög vel hafi gengið að fá leikara til þess að taka þátt í æfingunni að þessu sinni. „Við vorum með óvanalega lágan meðalaldur, líklega þann yngsta sem hefur verið á slíkri æfingu hjá okkur. Þátttakendur stóðu sig alveg frábærlega og eiga miklar þakkir skildar fyrir að hafa boðið sig fram, því án þeirra hefði engin æfing orðið. Það sama má segja um alla sem tóku þátt í þessu, björgunarsveitir, heilbrigðisstarfsfólk og alla hina.“

Gestrisni bæjarbúa stendur uppúr
Er eitthvað sem stendur uppúr eftir helgina að mati Elvu? „Ætli það sé ekki einstaklega mikil gestrisni bæjarbúa, en það voru allir tilbúnir að hjálpa hvort sem það var við undirbúning, æfinguna sjálfa eða frágang.“

Ljósmyndir: Guðbrandur Örn Arnarson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.