Leit að ljúka á Vopnafirði

Hópar björgunarsveitafólks, sem hafa leitað að skipverja sem talinn er hafa fallið útbyrðis af skipi sem kom til Vopnafjarðar í gærmorgun, fóru að skila sér í hús upp úr klukkan fimm í dag. Leit verður haldið áfram næstu daga þótt það verði ekki af sama krafti og í dag.

Um 200 manns úr björgunarsveitum af öllu Austurlandi og norður um til Húsavíkur hafa leitað í dag. Enn eru þó nokkrir hópar og björgunarskip við leit utarlega í Vopnafirði.

Leitin hófst upp úr klukkan tvö í gær þegar ljóst varð að maðurinn væri ekki um borð í skipinu þegar það var komið til hafnar á Vopnafirði. Þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í leitinni sem stóð fram að miðnætti í gærkvöldi. Þyrlan fór þá heim en flugvél gæslunnar sveimaði yfir firðinum í dag. Flygildi, neðansjávardrónar og fleiri tæki hafa verið nýtt til leitarinnar. Aðstæður hafa verið með besta móti, hægviðri, sólríkt og því gott skyggni.

Fjörur hafa verið gengnar beggja vegna fjarðarins og svæði tvíleituð. Allur fjörðurinn innan tanga fínkembdur á sjó og landi. Auk þess var leitað svæði sem markast af Selnibbu að norðan og Flös í Kollumúla að sunnan.

Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi um klukkan hálf sjö lýkur leit dagsins innan tíðar. Henni verður framhaldið á morgun og mun björgunarsveitin Vopni annast hana næstu daga og fram að helgi. Stefnt er þá að fjölgun í leitarliði að nýju. Ákvörðun um framhald leitar, hafi hún ekki borið árangur, verður þá tekin.

Vopni Leit 20200519 0035 Web
Vopni Leit 20200519 0039 Web
Vopni Leit 20200519 0042 Web
Vopni Leit 20200519 0046 Web
Vopni Leit 20200519 0071 Web
Vopni Leit 20200519 0088 Web
Vopni Leit 20200519 0094 Web
Vopni Leit 20200519 0097 Web
Vopni Leit 20200519 0103 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.