Leit að heitu vatni á Djúpavogi hætt að sinni

Leit að heitu vatni á Búlandsnesi í Djúpavogshreppi hefur verið hætt að sinni. Boranir þar í byrjun mánaðarins báru takmarkaðan árangur.


„Við vorum að dýpka tvær holur núna í þeirri von að við myndum finna heitara vatn. Við lentum á mjög hörðu bergi og höfum sagt þetta gott í bili.

Við viljum hafa vaðið fyrir neðan okkur áður en haldið verður áfram því það verður mjög dýr framkvæmd,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri.

Fyrir nokkrum árum voru boraðar nokkrar holur á nesinu. Úr einni þeirra hefur runnið vatn af sjálfu sér, 4 lítrar á sekúndu af 42°C heitu vatni. „Við vonuðumst til að finna heitara vatn en það þarf stærri og kostnaðarsamari aðgerðir til að það geti orðið,“ segir Gauti.

Jarðfræðistofan Stapi hefur haft umsjón með verkinu en Ræktunarsamband Flóa og Skeiða borar. Gauti segir að þrátt fyrir að borinn hafi lent á bergi sé ekki öll sagan sögð. „Við erum ekki hætt en þessum áfanga er lokið í bili.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.