Leggja til að fækka prestum um tvo

Tillaga liggur fyrir komandi Kirkjuþingi um að fækka prestum Þjóðkirkjunnar á Austurlandi um tvo, úr tíu í átta.

Í dag starfa tíu prestar í Austurlandsprófastsdæmi en lagt er til að þeim fækki um tvo í tillögum sem liggja fyrir Kirkjuþingi sem haldið verður í næstu viku.

Lagt er til að stöðugildi héraðsprests verði lagt niður og fækkað um einn prest í Austfjarðaprestakalli þannig þar verði sóknarprestur og þrír prestar. Prestakallið var við sameiningar eldri prestakalla á svæðinu og í því starfa í dag fjórir prestar og sóknarprestur.

Lagt er til að engin breyting verði í Hofsprestakalli, þar sem er einn sóknarprestur né heldur í Egilsstaðaprestakalli þar sem er sóknarprestur og tveir prestar, þar af einn með prófastsskyldur.

Í greinargerð, sem skrifuð er af tveimur fulltrúum á kirkjuþingi segir að tillögurnar endurspegli bæði fjárhagsstöðu kirkjunnar, hins vegar búsetuþróun.

Gerðar eru tillögur um fækkun alls 12 stöðugilda hjá kirkjunni og er árlegur sparnaður af þeim talinn nema 180-90 milljónum. Fram kemur að talsverður halli hafi verið á rekstri Þjóðkirkjunnar í fyrra og í ár. Gefinn er tveggja ára tími til aðlögunar að brettum reglum.

Ráðningarbann er meðal þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til vegna fjárhagsstöðunnar. Vegna þess hefur ekki enn verið auglýst laus staða í Egilsstaðaprestakalli þar sem séra Ólöf Margrét Snorradóttir er að láta af störfum.

Þær upplýsingar fengust hjá Biskupsstofu að á fundi með sóknarnefnd í síðustu viku hefði biskup lýst vilja sínum til að auglýsa stöðuna hið fyrsta. Það veltur þó á kirkjuþingi en fyrir því liggur tillaga um að framlengja ráðningarbannið til áramóta. Búið er að ganga frá því að þar til nýr prestur verði ráðinn muni starfandi prestur frá Biskupsstofu hlaupa í skarðið og er sá væntanlegur austur í næsta mánuði.

Kirkjuþing verður sett á laugardag og stendur til miðvikudags. Fulltrúi Austurlandsprófastsdæmis er Einar Már Sigurðarson, fyrrum þingmaður. Hann á sæti í fjárhagsnefnd þar sem vænta má að þessi tillaga komi til umfjöllunar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.