Laxar skoða milljarða uppbyggingu á Djúpavogi

Fiskeldisfyrirtækið Laxar hafa samið við Djúpavogshrepp um forgangsrétt að lóð undir fiskvinnslu við Innri-Gleðivík. Framkvæmdastjórinn segir tímasetningu og stærð bygginganna velta á hraða uppbyggingar laxeldis á Austfjörðum. Sveitarstjóri Djúpavogshrepps segir fiskeldið koma með mikilvæg störf í byggðarlagið.


Á svæðinu við gömlu bræðsluna í Gleðivík áforma Laxar uppbyggingu undir fiskvinnslu, fiskkassagerð og laxabúr. Ekki liggur enn fyrir endanlega hvaða svæði verði fyrir valinu því framundan er frekari hönnunarvinna.

Helgi G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Laxa, segir þó ákveðna lóð eyrnamerkta Löxum og það sé forsenda frekari hönnunar. „Við leggjum peninga í hönnun með ákveðna lóð íhuga. Djúpivogur bauð lóð sem gæti hentað mjög vel og við viljum endilega kanna það mál frekar,“ segir Helgi.

Miðast við að fyrirtækin fái leyfin sem þau hafa sótt um

Um er að ræða framkvæmd upp á þrjá milljarða króna sem skapar fjölda starfa. Ekki er ljóst hvenær hafist verði handa en Helgi býst við það þunginn í framkvæmdunum verði á árunum 2019 eða 2020.

Í samningnum felst að Djúpavogshreppur veitir fyrirtækinu forgangsrétt varðandi nýtingu svæðisins til loka september 2019. Tímabilið mun gera Löxum ehf. kleift að ljúka við nákvæma hönnun fyrirhugaðrar starfsemi sem samrýmast skal skipulagsskilmálum svæðisins.

„Það fer eftir hvernig uppbyggingin á eldinu gengur. Þessar framkvæmdir miðast við að fiskeldisfyrirtækin fái þau leyfi sem þau eru með í umsóknarferli,“ segir Helgi.

Áhættumatið hluti af umræðunni

Laxar hófu nýverið laxeldi í Reyðarfirði. Búist er við að fyrstu löxunum þaðan verði slátrað haustið 2018 og eldið verði komið í fullan rekstur 2019. Laxar hafa sótt um leyfi til eldis á fleiri stöðum á Austurlandi, líkt og Fiskeldi Austfjarða sem þegar er með eldi í Berufirði.

Eldið er háð mati á umhverfisáhrifum, burðarþoli auk þess sem í júlí bættist við áhættumat Hafrannsóknarstofnunar á blöndun villtra og ræktaðra laxa. Í því var mælt með talsverðum takmörkunum á eldinu á Austfjörðum.

Helgi segir það ekki slá á fyrirætlanir Laxa á Djúpavogi. „Við viljum halda áfram. Áhættumatið er ekki alls ráðandi, það er hluti af umræðunni. Það er líka gert burðarþolsmat. Síðan eru allir þessir hlutir skoðaðir áður en ákvörðun er tekin.

Á vegum sjávarútvegsráðuneytisins starfar nefnd sem skilar fljótlega af sér tillögum um stefnumótun í fiskeldi. Þar er ýmislegt gott að finna og annað sem þarf að ræða betur.“

Þurfum á störfunum að halda

Laxar eru með aðstöðu á Eskifirði en Helgi segir ýmsar ástæður fyrir að Djúpivogur sé talinn henta best undir sláturhúsið, meðal annars uppbygging Fiskeldis Austfjarða sem á hluta í og slátrar hjá Búlandstindi.

„Við leituðum að lóðum víðar en það var ekki mikið af þeim til reiðu. Þetta er ekki endanleg staðsetning, við getum enn skoðað aðra möguleika. Djúpivogur hentar vel, þar er slátrun í dag í Bauk þess sem við höfum verið í ágætu samstarfi við Fiskeldi Austfjarða. Við erum líka hlynntir því að auka við atvinnuuppbyggingu á Djúpavogi.“

Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, segir sláturhús Laxa geta skipt byggðarlagið miklu máli.

„Ef uppbyggingin í kringum fiskeldið verður með líkum hætti og lagt var af stað með í upphafi er ljóst að tugir starfa eru í húfi. Við þurfum sannarlega á þeim að halda í ljósi þeirra áfalla sem við höfum orðið fyrir í atvinnulífinu undanfarin ár.“

Eggin í Gleðivík. Í víkinni skoða Laxar lóð undir fiskvinnslu.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.