Ólafur Ísleifsson: Bankarnir eru reknir eins og innheimtufyrirtæki

olafur_isleifsson_feb13.jpg
Aðstæður í íslenska fjármálakerfinu eru allt aðrar í dag heldur en þegar verðtryggingunni var komið á árið 1979. Þess vegna á afnám hennar ekki að valda sömu vandamálum og henni var beitt gegn þá. Koma verður böndum á bankana sem hegða sér eins og innheimtufyrirtæki en ekki viðskiptabankar.

„Hinn svokallaði fjármálamarkaður rís ekki undir nafni. Bankakerfið er ófullnægjandi og óboðlegt. Bankarnir eru reknir eins og innheimtufyrirtæki en ekki viðskiptabankar eins og annars staðar,“ sagði Ólafur Ísleifsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík, á opnum fundi um verðtrygginguna sem haldinn var á vegum Framsóknarflokksins á Egilsstöðum í síðustu viku.

Ólafur sagði að vogunarsjóðir hefðu keypt bankana á slikk og ætluðu sér að ná hagnaði út úr þeim. „Við getum ekki búist við að sá hagnaður verði látinn liggja inni í bönkunum,“ sagði hann. 

Nauðsynlegt væri að tryggja að sá hagnaður rynni ekki allur í vasa eigendanna. „Annað hvort skila bankarnir hagnaðinum sjálfir á siðaðan hátt eða það verður að taka hann með ríkisvaldi, þá sköttum. Það þarf þor til að fara gegn þessum öflum.“

Bankahrunið afhjúpaði verðtrygginguna

Ólafur sagði „bankahrunið hafa afhjúpað verðtrygginguna. Ef ég lána þér sex brennivínsflöskur þá ætlast ég til þess að fá sex til baka. En peningar eru annars eðlist. Verðgildi þeirra fer eftir aðstæðum í efnahagslífinu.

Það eru aðilar hér sem þurfa að lána út fé. Þeirra verkefni er að finna sér ávöxtunarkosti, ekki að þeim sem sé afhentur verðtryggður samningur og þeir þurfi ekkert að hugsa um hlutina meir. Verðtryggingin grefur undan aga og forðar aðilum vinnumarkaðarins og stjórnvöldum undan ábyrgð á stjórn efnahagslífsins.“

Ekki hægt að bjóða unga fólkinu upp á verðtryggða framtíð

Ólafur gagnrýndi bankakerfið harðlega fyrir þá fjötra sem hann segir það hneppa unga viðskipta vini í. „Vextirnir eru í lagi núna en eftir þrjú ár eru þeir endurskoðaðir og ákveðnir einhliða. Viðskiptavinirnir komast ekki annað því kjörin eru alls staðar þau sömu.

Það verður að verja þetta unga fólk. Heilkynslóð á ekki eiga allt sitt undir bönkum sem ákveða vexti einhliða ef þeim gengur illa. Við getum ekki boðið ungu kynslóðinni upp á verðtryggða framtíð.“

Af hverju er ekki verðtryggingin nefnd sem úrræði í kennslubókum?

Í framsöguræðu sinni svaraði Ólafur nokkrum þeirra fullyrðinga sem settar hafa verið fram til stuðnings verðtryggingunni. „Afnámið veldur verðbólgu! Af hverju er verðtryggingin ekki notuð annars staðar? Af hverju er hún ekki nefnd í kennslubókum í hagfræði sem úrræði?“

Hann hafnaði því að afnám verðtryggingar myndi skaða lífeyri og nefndi sem dæmi lífeyrissjóðakerfið Hollendinga sem hann sagði svipað og hið íslenska, nema það byggðist „ekki á að blóðmjólka heimilin.“

Útilokað væri að sparifé hyrfi eins og fyrir 1979 þegar verðtryggingunni var komið á. „Það er allt annað umhverfi nú. Hér hefur þróast fjármálamarkaður og það eru komnar leiðir til að ávaxta sparifé.“

Lánveitendur varðir fyrir úrillum einræðisherrum

Hann hafnaði því sömuleiðis að hún væri vörn gegn verðhækkunum. Það væru lánveitendur sem væru varðir, sama hvað gerðist. „Þeir eru varðir gegn því ef einræðisherra í Mið-Austurlöndum fer öfugu megin fram úr og hækkar olíuverð. Þeir eru varðir fyrir Seðlabankanum og þeir eru varðir fyrir því að efnahagslíf þjóðarinnar hrynji eins og það gerði árið 2008.

Vextir munu hækka! Í hvaða heimi lifir þetta fólk? Þeir ákvarðast á markaði. Hér er hins vegar einokunarsamstarf í stað samkeppni. Það gengur ekki að þessir aðilar ákveðið vextina sín á milli.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.