Kynslóðaskipti í River

Nýir eigendur tóku við tísku- og íþróttavöruversluninni River á Egilsstöðum um mánðamótin þegar María Lena Heiðarsdóttir Olsen og Hannes Örn Ívarsson tóku við rekstrinum af foreldrum Maríu Lenu. Þau byrjuðu með sólbaðsstofu fyrir rúmum 20 árum.

Sólbaðsstofan Perlusól hóf starfsemi í bílskúrnum við heimili fjölskyldunnar á Egilsstöðum árið 2002. Þar mátti einnig fá nærföt og náttföt áður en tískufötin fóru að bætast við.

Starfsemin gekk vel og árið 2011 flutti hún í miðbæinn og tók upp nafnið nýtt nafn. Sólbaðsstofan flutti með en hætti fljótlega. Stutt er síðan verslunin var stækkuð.

Netverslun var sett á laggirnar í Covid-faraldrinum. Hún hefur gengið vel og skilar í dag um fimmtungi veltunnar. Viðskiptavinir River koma því víða að. „Til viðbótar við Austfirðinga fáum við töluvert af fólki frá Akureyri og Hornafirði. Stundum kemur það saman í hópum. Samfélagsmiðlarnir hafa líka gert okkur kleift að ná til fólks.

Þegar fólk finnur að það fær góða þjónustu þá kemur það aftur. Við höfum eignast marga góða viðskiptavini,“ segir Björk Birgisdóttir Olsen sem hefur verið að baki River ásamt manni sínum, Heiðari Víkingi Sölvasyni.

River leggur líka áherslu á að þjónusta heimafólk, meðal annars með íþróttafatnaði. „Þetta er ólíkt en vinnur mjög vel saman,“ segir Björk.

María Lena segist spennt fyrir að taka við rekstrinum en segir engar stórar breytingar fyrirhugaðar. „Ég ólst upp við þetta og er tilfinningalega tengd versluninni. Við ætlum að betrumbæta það sem hægt er en annars verður verslunin lík því sem hún hefur verið.“

María Lena stendur að baki íþróttavörumerkinu M-fitness, sem nýtti sama bílskúr og River í upphafi. Það rekur núna tvær verslanir undir eigin nafni, auk þess að vera selt í átta öðrum búðum á landinu, þar með talið River þar sem það hefur verið frá því það fór af stað árið 2017. „Okkur hefur alltaf verið vel tekið á Austurlandi,“ segir María Lena.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.