„Kveikja fyrir þá sem vilja vita meira um Austurland“

„Þetta er allt annað en fréttasíða, við erum að skrásetja lífið okkar hér á Austurlandi,“ segir María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, um heimasíðuna Austurland.is sem opnuð var á dögunum.



Austurland.is er opinber heimasíða verkefnisins Áfangastaðurinn Austurland.

„Síðan á að vera gluggi inn í líf okkar hér á Austurlandi, bæði á íslensku og ensku. Við erum að fjalla um lífsstílinn okkar og mannlífið og er þetta ákveðin kveikja, bæði fyrir gesti og íbúa sem vilja vita meira, en ekki síst fyrir þá sem hafa hug á því að flytja á Austurland,“ segir María.



Vilt þú taka þátt í að byggja upp ljósmyndabankann?

Unnið er að því að byggja upp öflugan ljósmyndabanka í tengslum við verkefnið. Austurland.is er ætlað að einfalda fólki og fyrirtækjum að leita hagnýtra upplýsinga um Austurland. Gáttin mun spila stórt hlutverk í að þjónusta austfirsk fyrirtæki og sveitarfélög við að þróa sameiginlega rödd Austurlands út á við og leggja grunn að stjórnun áfangastaðarins til framtíðar.

„Allt frá því að við byrjuðum að vinna að verkefninu Áfangastaðurinn Austurland hefur okkur skort myndefni og hefur það verið mikið vandamál. Við ætlum að byggja upp ljósmyndabanka sem sýnir mismunandi hliðar á Austurlandi og viljum bjóða öllum þeim sem áhuga hafa að gera það með okkur. Við munum opna á það að fólk geti sent inn mynd og óskað eftir að hún verði í bankanum, en við munum borga fyrir myndirnar og að sjálfsögðu alltaf geta ljósmyndarans. Ljósmyndabankinn mun svo nýtast okkar þjónustuaðilum í sinni markaðssetningu þannig að það verður ákveðinn blær eða rauður þráður í öllu því sem við gefum frá okkur.“


Verkefnið strax farið að skila árangri

Áfangastaðahönnuðurinn Daniel Byström er einn þeirra sem hefur unnið að verkefninu Áfangastaðurinn Austurland.

„Hlutverk mitt er að greiða fyrir framgangi verkefnisins og knýja það áfram ásamt með Maríu Hjálmarsdóttur hjá Austurbrú. Ég er áfangastaðahönnuður með áherslu á sjálfbærni og samfélagsmiðuð verkefni,“ segir Daniel, um aðkomu sína að verkefninu.

Daniel segist viss um að framtakið hafi nú þegar gert mikið fyrir Austurland. „Það sameinar okkur og styrkir upplifun okkar og vitund í sambandi við Austurland. Verkefninu Áfangastaðurinn Austurland hefur tekist að koma á fót samfélagssamtökum og ramma fyrir áframhaldandi þróun á samstarfi. Við erum öll saman í því að þróa áfangastaðinn okkar og þannig viljum við hafa það. Mikilvægasti þátturinn í að styrkja aðdráttarafl og samkeppnishæfni áfangastaðarins okkar, Áfangastaðarins Austurlands, er að einbeita okkur að vellíðan íbúa svæðisins og gesta okkar.“


Miklu meira en sátt

„Ég er miklu meira en sátt,“ segir Díana Mjöll Sveinsdóttir, formaður ferðamálasamtaka Austurlands, um útkomuna. „Við fórum af stað með lítið stefnumótunarverkefni, Hönnun áfangastaðarins Austurlands, sem nú er orðið miklu meira en bara ferðaþjónusta. Heimasíðan bara vísir að miklu öflugra og sameinuðu samfélag á Austurlandi. Ég held að við höfum aldrei gert okkur grein fyrir því þegar við byrjuðum að við myndum standa hér með þetta í höndunum og má þakka austfirðingum öllum fyrir frábæra samheldni í aðkomunni að þessu verkefni.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.