Kroppakjör risin á ný

„Ég átti mig sjaldnast á því hvað ég er orðinn gamall,“ segir Már Sveinsson, 84 ára íbúi í þjónustuíbúðunum Breiðabliki í Neskaupstað, en lítil líkamsræktaraðstaða var formlega opnuð þar á föstudaginn að hans frumkvæði.



Íbúar Breiðabliks sendu félagsmálanefnd bréf þar sem lagt var til að tómstundaherbergi yrði betur nýtt með því að koma þar upp líkamsræktartækjum þar sem margir íbúanna gætu ekki stundað útihreyfingu yfir veturinn. Málið var samþykkt af félagsmálanefnd og síðar bæjarráði.

„Þetta kom nú bara þannig til að við hittumst oft hérna frammi þar sem við sitjum og spjöllum yfir kaffibolla. Sumir reyna að hreyfa sig eitthvað á ganginum, en margir eru orðnir með það slæma hreyfigetu og eru því alls ekki hæfir til að fara út yfir vetrartímann. Ég kastaði því fram hvort einhver myndi nýta sér slíka aðstöðu, væri hún fyrir hendi – en þau héldu það nú,“ segir Már og skellihlær.

Már lét ekki þar við sitja, heldur talaði við Guðmund R. Gíslason, framkvæmdastjóra SÚN, sem hvatti hann til þess að sækja um styrk sem svo fékkst.

„Ég fór suður og valdi tækin, göngubraut og sethjól. Ég held að mjög vel hafi tekist til. Þau voru svo formlega afhent síðastliðinn föstudag en við þjófstörtuðum viku fyrr, allir voru svo spenntir að byrja,“ segir Már, en nítján mættu í salinn fyrsta daginn.

Már hefur tekið að sér að kenna félögum sínum á tækin og vera viðstaddur svo lengi sem þurfi. „Svo verður bara að koma í ljós hvað verður, kannski verður bara hægt að hafa almenna opnun einhvern tíma dagsins. Síðar getur komið eitthvað meira og úr gæti orðið einskonar félagsheimili, en nú þegar eru komin hljómflutningstæki.“


SÚN einstakt á landsvísu

Már segir það engan vafa í sínum huga að regluleg hreyfing skipti höfuðmáli fyrir góða heilsu.

„Janus Guðlaugsson, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og fyrrverandi afreksmaður í knattspyrnu segir að það sé hægt að snúa öldrunarferlinu við með markvissri þjálfun og byggja upp vöðva hjá áttræðu fólki. Ég er sammála þessu og hef alltaf talað fyrir markvissri hreyfingu,“ segir Már sem rak eina fyrstu líkamsræktarstöð landsins, Kroppakjör í Neskaupstað, um ellefu ára skeið. Nú er Kroppakjör risin á ný.

„Nafnið á stöðinni kom þannig til á sínum tíma að verslunin Neskjör hafði verið í húsnæðinu á undan okkur og því lá það beint við. Ég nefndi þetta við félaga mína hérna og þeim þótti þetta snjallt þannig að segja má að Kroppakjör hafi opnað á ný.

Við erum afskaplega þakklát SÚN fyrir þetta og þetta fyrirtæki er alveg einstakt – styrja innviði samfélagsins á allan hátt, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem þeir gefa eitthvað hingað til okkar. Þetta er líklega einsdæmi á landinu og fleiri ættu að taka sér það til eftirbreytni.“

 Kroppakjör Nesk

Frá afhendingunni - frá vinstri: Már Sveinsson, Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN, Magnús Jóhannsson, stjórnarformaður og Smári Geirsson, aðalritari.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.