Kosið um sameiningu í mars

Kosið verður um sameiningu Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps laugardaginn 24. mars. Samstarfsnefnd sveitarfélaganna skilaði af sér tillögu sinni í dag.

„Við teljum allar forsendur vera þannig að rétt sé að málið fari fyrir íbúana,“ segir Jón Björn Hákonarson, formaður nefndarinnar og forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

Upphaflega stóð til að nefndin skilaði að sér af föstudag en það dróst þar til í dag. Sameiningarviðræðurnar hófust í byrjun nóvember og segja þeir sem komið hafa að vinnunni að mikið hafi verið unnið á stuttum tíma.

Fundað var með ráðuneyti sveitarstjórnarmála og fulltrúum stofnana sem að málinu koma í síðustu viku. Svörin sem þar fengust voru jákvæð og að því loknu var smiðshöggið rekið á vinnu nefndarinnar.

Nefndin skilar af sér skilabréfi sem tekið er fyrir á fundum sveitastjórnanna beggja. Funda skal um það tvisvar á hvorum stað með viku millibili. Hreppsnefnd Breiðdalshrepps hittist í kvöld en bæjarstjórn Fjarðabyggðar á fimmtudag. Sveitastjórnirnar funda svo aftur eftir slétta viku.

Með ákvörðun nefndarinnar er ljóst að kosið verður, eina atkvæðagreiðslan í sveitastjórnunni verður um kjördaginn sjálfan.

Að lokinni umfjöllun sveitastjórnanna tekur við tveggja mánaða kynningartímabil. Jón Björn segir að stefnt sé að því að kynningarefnið verði tilbúið í kringum 20. janúar eða um það leyti sem seinni umræðan verður í bæjarstjórn Fjarðabyggðar.

Varaformaður nefndarinnar er Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps. Auk þeirra sitja í nefndinni Jens Garðar Helgason, Eydís Ásbjörnsdóttir og Páll Björgvin Guðmundsson frá Fjarðabyggð og Gunnlaugur Stefánsson, Sif Hauksdóttir og Svandís Ingólfsdóttir frá Breiðdalshreppi. Starfsmaður nefndarinnar er Björn Hafþór Guðmundsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar