Kórónaskilaboð um miðjar nætur vekja Seyðfirðinga

Seyðfirðingar hafa sumir hverjir vaknað upp með andfælum eftir að hafa fengið SMS-skilaboð frá almannavörnum með leiðbeiningum til ferðalanga til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar.

„Ég hef vaknað við þessi skilaboð og veit um fleiri sem hafa gert það,“ segir Árni Geir Lárusson, íbúi á Seyðisfirði.

Nokkuð misjafnt virðist milli Seyðfirðinga hve mörg skilaboð þeir hafi fengið. Árni Geir segist hafa fengið þrjú alls, þar af tvö klukkan fimm aðfaranótt miðvikudags.

Skilaboðin eru ætluð ferðamönnum sem eru að koma til landsins með Norrænu. Þau eru hins vegar send út á afmörkuðu landssvæði og fara því einnig til allra Seyðfirðinga. Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum á Austurlandi stendur einnig til að senda sambærileg skilaboð á þá sem koma með millilandaflugi til Egilsstaða og gætu þá borist til íbúa þar.

Skilaboðunum eru á ensku og í þeim sem send voru í vikunni er ferðamönnum ráðlagt, hafi þeir verið í Kína og þá einkum Wuhan-héraði, að fylgjast með heilsufari sínu næstu 14 daga þar sem þeir kunni að hafa komist í snert við smitaðan einstakling. Þá fylgja leiðbeiningar um hvert ferðafólk verður vart við einkenni kórónaveikinnar, hita, hósta og erfiðan andardrátt. Sambærileg skilaboð munu vera send farþegum sem koma til landsins um Keflavíkurflugvöll.

Árni Geir segir að Seyðfirðingar kippi sér almennt ekki mikið upp við skilaboðin. „Það er enginn brjálaður og almennt þykir þetta fyndið, þótt það sé ekki þannig að allir geti sofnað aftur vakni þeir upp við skilaboðin. Eins og einhver sagði við mig þá ætti maður að læra af þessu að hafa ekki símann á náttborðinu.“

Í tilkynningu frá Almannavörnum er beðist velvirðingar á þeim óþægindum sem íbúar á svæðunum verða fyrir, en skilaboðunum sé fyrst og fremst ætlað að ná til farþega sem koma erlendis frá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.