Kominn tími til að ræða um snjallt dreifbýli

Málþing verður haldið samtímis á sex stöðum á landinu, þar á meðal Reyðarfirði, á fimmtudag um tækifæri dreifðra byggða í fjórðu iðnbyltingunni. Framtíðarfræðingur segir ýmis tækifæri til staðar ef innviðirnir eru fyrir hendi.

„Það hefur mikið verið fjallað um snjallar borgir en lítið um tækifæri og möguleika dreifða byggða. Við teljum möguleika dreifbýlisins ekki síðri, jafnvel meiri en þéttbýlisins,“ segir Karl Friðriksson, framtíðarfræðingur og forstöðumaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Miðstöðin stendur fyrir málþinginu í samvinnu við landshlutasamtökin og fleiri aðila. Fyrirlesarar verða á sex stöðum á landinu en gestir geta ýmist mætt á einhvern þessara staða eða skráð sig til að fylgjast með netstreymi. „Þetta verður iðnbyltingarlegur fundur,“ segir Karl.

Einn fyrirlesari verður á hverjum stað og er María Ósk Kristmundsdóttir frá Fjarðaáli Austfirðingurinn í hópnum. Einn erlendur fyrirlesari verður, Englendingurinn David Wood, sem ræðir um snjallar dreifðar byggðir og tækifæri sem í þeim felast en líka ógnanir ef ekkert er að gert.

Með fjórðu iðnbyltingunni er átt við þá öru tækniþróun sem er að verða á ýmsum sviðum, svo sem gervigreindar og róbóta sem ýmist létta mannfólkinu störfin, breyta þeim eða jafnvel koma í stað fólksins.

Í einhverjum tilfellum hefur iðnbyltingin birst íbúum í dreifbýli á þann hátt að störf eru lögð niður því hægt er að leysa þau án mannfólks. Fækkun starfsfólks í bönkum er dæmi um þá afleiðingu. „Iðnbyltingin felur í sér breytingu á atvinnuháttum. Þeir breytast stöðugt og störf sömuleiðis.

Fjórða iðnbyltingin ætti á móti að gefa meiri tækifæri á að vinna hinn ýmsu störf án staðsetningar. Í því eru mikil tækifæri ef rétt er búið um innviðina. Við verðum sífellt meira vör við að kvartað er undan skorti á fjölskylduvænu umhverfi, áherslu á sjálfbærni og nýtingu hráefna. Þessi öfl munu koma enn sterkar fram á næstu árum og þéttbýlið á ekki mjög góð svör við þessu,“ segir Karl.

Hann bendir einnig á að sjálfvirknivæðingin hafi gert ýmsum fyrirtækjum landsbyggðinni kleift að styrkja rekstur sinn. „Hún hefur gefið stóru sjávarútvegsfyrirtækjunum eystra getu til að gera nýja hluti. Þau hafa tæknivætt sig til að standast áskoranir samkeppni. Með því haldast störfin frekar innan svæðanna en ella.“

Dagskrá fundarins og nánari upplýsingar má finna á vef Nýsköpunarmiðstöðvar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.