Kom betri kennari heim frá Kína

„Það skiptir öllu máli að læra tungumálið í því samfélagi sem þú býrð, það er erfitt að komast inn í það án þess og mikil hætta á að lenda utanveltu,“ segir Berglind Einarsdóttir kennari, en metþátttaka hefur verið í íslenskukennslu á vegum Austurbrúar í Djúpavogshreppi að undanförnu.


Um 30 nemendur eru skráðir, helmingur þeirra er byrjendur en einnig er boðið upp á framhaldsnámskeið fyrir þá sem hófu nám á vorönn. Lilja Dögg Björgvinsdóttir er verkefnastjóri hjá Austurbrú.

„Við stóðum fyrir íslenskukennslu á Djúpavogi í vor. Lágmarksþátttaka var tíu nemendur en við náðum fjórtán. Markið var svo sett hærra í haust, eða á fimmtán nemendur. Við vissum að margir voru áhugasamir en þrátt fyrir það þótti okkur þetta nokkuð háleitt markmið. Við fórum í fyrirtækin og hvöttum starfsfólk til að taka þátt og á sama tíma voru gömlu nemendurnir farnir að hafa samband við kennarann og athuga hvort það yrði ekki örugglega framhaldsnámskeið. Áður en varði taldi hópurinn 25 manns í heildina og í dag erum við með um 30 nemendur, byrjendur og lengra komna. Flestir eru frá Filippseyjum, þá Póllandi en einnig frá fimm öðrum þjóðlöndum; Ungverjalandi, Brasilíu, Tyrklandi, Spáni og Honduras,“ segir Lilja.

Áhugasamir nemendur
Berglind hefur lengi kennt útlendingum íslensku meðfram annarri vinnu. Hún var kennari og aðstoðarskólastjóri við Djúpavogsskóla um árabil, en rekur nú ferðaþjónustufyrirtækið Adventura.

„Ég er búin að vera í þessu í tíu til fimmtán ár. Helsta breytingin sem ég sé er að nemendur eru yngri og áhugasamari. Áður fyrr var fólk kannski að koma til landsins til þess að vinna vegna þess að það fékk ekki vinnu í sínu heimalandi. Nú eru flestir hér á sínum eigin forsendum, vegna þess að þeir virkilega vilja það sjálfir og eru áhugasamir að læra málið og koma sér inn í samfélagið. Þetta er mjög góður og skemmtilegur hópur.“

„Ég læt þau syngja mikið af einföldum lögum"
Berglind er með BA próf í íslensku og auk þess menntaður tónlistarkennari og segir þann grunn nýtast vel í íslenskukennslunni. „Ég læt þau syngja mikið af einföldum lögum. Það er mjög misjafnt hvar nemendurnir eru staddir, sumir kunna eitthvað en aðrir bara ekki neitt. Það er einnig miserfitt fyrir þjóðernin að læra málið okkar. Asísku málin eru hljóðamál en þau evrópsku málfræðimál. Sjálf bjó ég eitt ár í Kína og áttaði mig mun betur á því eftir það hvað fólk þaðan er að glíma við. Þar er lítil málfræði en öll hljóð þurfa að vera rétt. Ég held ég geti fullyrt að ég kom betri kennari til baka eftir þá dvöl.“

Námskeiðin eru góður grunnur
Berglind segir alltaf jafn ánægjulegt að upplifa framfarir í nemendahópnum þegar líður á námskeiðin.

„Það er alltaf jafn góð tilfinning að sjá þegar nemendur ná tökum á málinu. Það eru íbúar hér á Djúpavogi sem kunnu ekkert áður en þeir byrjuðu á námskeiðunum en tala við mig íslensku þegar ég hitti þá í búðinni í dag. Þar ríður íslenskukennslan mín ekki baggamuninn, heldur eru slík námskeið góður grunnur fyrir framhaldið. Svo eru það samskiptin á vinnustaðnum og í samfélaginu sem skipta máli.

Í minni kennslu reyni ég að koma inn á menninguna og einnig öll þessi praktísku atriði. Ég er dugleg að koma því áleiðis hvað um er að vera í hreppnum hverju sinni og við kíkjum reglulega á heimasíðu bæjarins. Ég er einnig í góðu sambandi við skólann og aðrar stofnanir og útskýri skóladagatalið vel, til dæmis hvað starfsdagur merkir og allir þessir föstu dagar. Einnig er ég oft beðin um að taka eitthvað sérstakt fyrir, eins og helstu áhöld og heiti í fiskvinnslunni, á borð við fisk og hníf,“ segir Berglind en hvor hópur er tvisvar í viku og námskeiðin standa fram að jólum.




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.