Körfubolti: Tap gegn Stjörnunni í lykilleik í baráttunni í úrslitakeppnissæti

Höttur tapaði í gærkvöldi 92-82 fyrir Stjörnunni í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Liðin berjast um áttunda og síðasta sætið í úrslitakeppni Íslandsmótsins í ár. Meiðsli og veikindi lykilmanna hafa gert Hetti erfitt fyrir allra síðustu leiki.

Fyrsti leikhluti var jafn, en að honum loknum var Stjarnan 20-18 yfir. Höttur átti góðan kafla síðustu þrjár mínútur fyrri hálfleiks, breytti stöðunni fyrst úr 41-36 í 42-42 og var yfir 46-50 í hálfleik.

Stjarnan fór mun betur af stað í þriðja leikhluta og komst í 55-51. Hetti tókst að jafna eftir það en aldrei að komast yfir. Þegar á leið herti Stjarnan heldur tökin og var 71-64 yfir eftir leikhlutann.

Höttur komst inn í leikinn í stutta stund í fjórða leikhluta. Tvær þriggja stiga körfur í röð minnkuðu muninn í 83-80. Stjarnan tók þá leikhlé, svaraði með tveimur þriggja stiga körfum og gerði þannig út um leikinn.

Gustav Suhr-Jessen var stigahæstur hjá Hetti með 18 stig en þeir David Guardia Ramos og Deontaye Buskey skoruðu 17. Buskey missti af síðasta leik vegna handarbrots en er nú kominn aftur. Matej Karlovic spilaði tvær mínútur í gær, þær fyrstu síðan í desember vegna bakmeiðsla. Miðherjinn Nemanja Knezevic var veikur og munaði um minna, Stjarnan tók 47 fráköst í gær gegn 33. Til að bæta gráu ofan á svart var Adam Eiður Ásgeirsson kominn með þrjár villur eftir sjö mínútur.

„Ég var ánægður með framlagið og við náðum bara ekki lengra í dag. Við settum hellings orku í þetta en erum svolítið fáliðaðir, menn að stiga í gegnum meiðsli og að koma til baka eftir að hafa náð einni eða tveimur æfingum síðustu þrjár vikur,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, í samtali við Vísi eftir leikinn.

Með sigrinum í gær náði Stjarnan Hetti að stigum en Höttur heldur 8. sætinu á innbyrðisviðureignum. Höttur á að auki leik inni.

Mynd: Daníel Cekic


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.