Kalli Sveins: Umhugsunarefni þurfi heiðarlegir framleiðendur að leita réttar síns í Brüssel

kalli_sveins.jpgKarl Sveinsson, útgerðarmaður á Borgarfirði, fagnar því að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi gert íslenskum yfirvöldum og saltfiskframleiðendum að hlýta banni við notkun fjölfosfata í saltfiski. Hann segir umhugsunarvert að menn þurfi að leita réttar síns gagnvart stjórnvöldum hjá erlendum aðilum. Hann segir að menn séu ekki aðeins að nota efnin til að láta fiskinn líta betur út heldur til að binda vatn í honum og þyngja til að fá hærra skilaverð á mörkuðum. Til þess hafi þeir notið aðstoðar MATÍS.

 

Í byrjun september sagði Karl, sem rekur Fiskverkun Kalla Sveins (FKS), upp öllu starfsfólki sínu. Hann sagðist ekki lengur geta keppt við íslenska framleiðendur sem noti ólögleg fjölfosföt til að gera fisk sinn verðmætari. Hann hætti að salta um áramótin 2008-9. Skömmu áður var stór sending frá honum, sem innihélt ekki efnið, verðfelld verulega. Honum gramdist einnig aðgerðaleysi eftirlitsaðila sem ekki hefðu gengið á eftir settum reglum og eigin áminningum.

Aðrir íslenskir framleiðendur hafa að undanförnu reynt að verja notkun efnanna en fyrir jól setti ESA þeim endanlega stólinn fyrir dyrnar. Karl segir að framleiðendurnir hafi alltaf vitað að efnið væri ólöglegt og vísar í reglugerð um aukefni í matvælum frá árinu 2002.
„Vestfirðingar byrjuðu að nota efnin með mikilli leynd uppúr aldamótum en það vissu fljótlega flestir af því. Þessa aðila var Einar K. Guðfinnsson að verja þegar hann boðaði neyðarfund í sjávarútvegsnefnd Alþingis rétt fyrir jólin. Fyrir þremur árum voru gerðar athugasemdir við notkun efnanna en Matvælastofnun (MAST) stakk þeim undir stól eftir að stóru framleiðendurnir settust inn hjá þeim og sögðu þeim fyrir verkum.“

Milljarðarnir í vatninu og þyngdaraukningunni

Framleiðendurnir hafa haldið því fram að efnið varðveiti upprunaleg gæði og lit hráefnisins. Eftir því sækist kaupendur á mörkuðum í Suður-Evrópu. Karl segir hins vegar að efnið geri fiskinn óeðlilega hvítan og bindi að auki vatn í fiskinum og þyngi hann. Sú þyngd hverfi við suðu og þar með sé í raun verið að svindla á neytendum.

„Það er að vissu leyti rétt að efnin varðveita gæði og lit fisksins og varna þránun en fyrst gera þau fiskinn óeðlilegan hvítan. Það sem þeir sækjast eftir og milljarðarnir felast í er vatnið í fiskinum. Flattur fiskur er seldur í sjö stærðarflokkum. Ef þú þyngir fiskinn um 10-20%, sem hægt er með efnunum, færist hann mögulega upp um einn stærðarflokk. Í auglýsingu frá einum framleiðanda tækjanna sem notuð eru við verkunina er heitið allt að 28% þyngdaraukningu.

Þeir segjast nauðbeygðir til að nota fosföt því markaðurinn heimti hvítan fisk en markaðurinn heimtar að framleiddur sé sá hvítasti fiskur sem hægt er eftir reglunum. Hinn endanlegi neytandi hefur ekki hugmynd um að þessi bönnuðu efni séu notuð því þau eru ekki merkt á umbúðirnar. Séu aukefni notuð er skylt að merkja þau á umbúðirnar. Svona hegðun er stórhættuleg fyrir markaðinn.“

Karl gagnrýnir hlut Matís ohf., sem hann segir taka þátt í feluleiknum. Náinn samgangur hafi verið milli þeirra og framleiðenda. „Það er ólíðandi að hlutafélag í opinberri eigu veiti framleiðendum ráðgjöf um notkun ólöglegra efna.“

Engin viðbrögð innlendra aðila

Karl hefur fylgt máli sínu eftir síðan það kom upp í september. Hann sendi kæru til Ríkislögreglustjóra, sem vísaði málinu frá. Þá kærði hann úrskurðinn til Ríkissaksóknara sem staðfesti frávísunina. „Ég get ekki annað en velt fyrir mér hvort þeir hafi verið kallaðir fyrir einhverja á vegum stjórnvalda og þeir beðnir um að vísa málinu frá.“

Karl stóð einnig við orð sín um að leita álits ESA. Þangað kærði hann vinnubrögð MAST þegar vika var eftir af nóvember. Í byrjun desember sendi ESA íslenskum stjórnvöldum harðort bréf um að þau skyldu framfylgja settum reglum. Bréfið var framhald sjálfstæðrar rannsóknar ESA á vinnubrögðum íslenskra saltfiskframleiðenda sem hafin var á ný eftir að mál Karls kom upp í haust.

Hann segir það „umhugsunarefni geti heiðarleg fyrirtæki ekki sótt rétt sinn hérlendis heldur þurfi að sækja hann til Brüssel. Það hlýtur að ráða miklu hjá fólki þegar kemur að því að synja eða samþykkja aðild að Evrópusambandinu. Ég skil ekki hvernig stjórnvöld ætla að fá útlendinga til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi þegar fámennar valdaklíkur halda íslenskum ráðgjafa- og eftirlitsstofnunum í heljargreipum.

Menn sögðu við mig að það þýddi ekkert að fara með málið til ESA. Þar fengist engin niðurstaða fyrr en eftir 2-3 ár ár, ef hún yrði þá nokkur. Mér sýnist eins gott að ég fór með það þangað. Ég hef barist í því hérlendis í fimm ár. Ég held að umfjöllunin í Noregi hafi líka ýtt undir aðgerðir ESA.“

Vill að heiðarlega sé staðið á framleiðslunni

Karl segist undrandi á þögninni sem hafi ríkt um málið síðan í september. Byggðastofnun hafi reyndar komið til Borgarfjarðar og unnið skýrslu um ástandið sem meðal annars var send til þingmanna Norðausturkjördæmis. Engin viðbrögð hafi borist frá opinberum aðilum og aðeins einn þingmaður hafi haft samband við hann. Ekki hafi heyrst „bofs frá Neytendasamtökunum“ og fjölmiðlar sem fjallað hafa um málið eftir að bréf ESA barst í desember hafi ekki leitað neinna upplýsinga hjá honum heldur leitað viðbragða stærstu hagsmunaaðilanna. „Með aðstoð núverendi og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hefur þeim tekist að skauta léttilega yfir sannleikann,“ segir Karl.

Hann heitir að halda baráttu sinni áfram þótt lögreglustofnanirnar hafi vísað kærum hans frá. „Ég er ekki að þessu til að skaða aðra framleiðendur heldur á eigin forsendum til að heiðarlega sé staðið að framleiðslu á saltfiski,framleiðslureglur virtar og íblöndun ólöglegra aukaefna, án vitundar neytenda, sé hætt. Ég vil bætur fyrir það misrétti sem mér hefur verið sýnt.“

Uppsagnirnar frá í haust voru dregnar til baka í desember. „Ég gaf fólkinu kost á endurráðningu en við eigum eftir að ganga frá þeim. Ég er ekki sá óþokki að henda fólki út á gaddinn í svartasta skammdeginu. Allra síst fólki sem frá stofnun fyrirtækisins hefur staðið þétt við bakið á mér. Ég held áfram þar til þetta mál er til lykta leitt.

Nánar er fjallað um málið í Austurglugganum í vikunni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.