Jónína Rós: Hef trú á að það sem kemur upp úr kössunum verði betra en kannanirnar segja

sdg_jonina_ros_kjordagur.jpg
Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist bjartsýn að morgni kjördag. Kosningabaráttan hafi verið drengileg og kjósendur málefnalegir og forvitnir um stefnu flokkanna.

„Dagurinn leggst vel í mig. Við erum búin að vinna vel og ég er ánægð með baráttuna,“ segir Jónína Rós.

Hún kaus á Egilsstöðum um ellefu leytið í morgun á sama tíma og formaður Framsóknarflokksins mætti á kjörstað. 

Í samtali við Austurfrétt sagðist Jónína ánægð með kosningabaráttuna. „Hún hefur verið drengileg. Ég hef ekki lent í neinu skítkasti, bara málefnalegri umræðu.

Auðvitað er alltaf einn og einn með sínu föstu, ákveðnu skoðanir og þá vær maður alveg að heyra þær, annars hefur mér fundist þetta vera málefnalegt og fínt.“

Þannig hafi verið sérstök upplifun að vera á Akureyri þar sem kosningaskrifstofur flokkanna séu í einum hnapp og mikil umræða úti á götu.

Jónína ætlar að vera á kosningaskrifstofu Samfylkingarinnar á Egilsstöðum í kvöld en bjóst við að renna til Seyðisfjarðar og Reyðarfjarðar í dag.


„Við höfum verið dugleg. Nú sjáum við bara hvað dagurinn ber í skauti sér og hvað kemur upp úr kössunum í kvöld. Ég hef trú á að það verði alla veganna betra en skoðanakannanir segja til um.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.