Jens Garðar: Ætlar að stofna reikning í SparNor strax í fyrramálið til að mótmæla lokun Landsbankans

jens_gardar_helgason_mai12.jpg

Landsbanki Íslands hefur ákveðið að loka útibúum sínum á Eskifirði og Fáskrúðsfirði í umfangsmiklum hagræðingaraðgerðum sem ná til starfsemi bankans um allt land. Formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar hvetur bæjarbúa til að láta bankann finna fyrir afleiðingum gerða sinna með að flytja viðskipti sín til Sparisjóðs Norðfjarðar.

 

„Það er íbúanna og fyrirtækjanna á Fáskrúðsfirði og Eskifirði að sýna það í verki, skipta um banka og sýna þannig að hagræðingin verður engin. Ályktanir og bókanir hafa ekkert að segja fyrir bankann. Að minnsta kosti ætla ég að gera mér ferð á Norðfjörð í fyrramálið og stofna reikninga í Sparisjóðnum,” skrifar Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, á Facebook-síðu sína í kvöld en hann er búsettur á Eskifirði.

Landsbankinn tilkynnti seinni partinn í dag um umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir sem leiða til uppsagnar alls 50 starfsmanna og lokunar útibúa víða um landið. Útibúin á Eskifirði og Fáskrúðsfirði verða sameinuð útibúinu á Reyðarfirði sem „verður í lykilhlutverki í Fjarðabyggð og nágrenni,“ eins og segir í tilkynningu bankans. Síðasti starfsdagur í þessum útibúum verður fimmtudagurinn 31. maí.

Rafræn viðskipti fækka heimsóknum í útibú 
 
Bankinn gefur þá skýringu að heimsóknum í útibúin hafi fækkað hratt undanfarin ár og sé nú um 80% allra samskipta við banka orðin rafræn eða um síma. Hagræðingin á að spara 400 milljónir í rekstri bankans árlega.

„Rekstur Landsbankans er til stöðugrar skoðunar með það fyrir augum að hagræða þar sem því verður við komið og leggja niður óhagkvæmar einingar ef þarf, án þess að því fylgi umtalsverð skerðing á þjónustu. Þessar aðgerðir fylgja þeirri stefnu. Lögð verður áhersla á halda áfram úti þjónustu á þeim stöðum sem afskekktastir eru með þjónustuheimsóknum en sambærileg aðferð hefur gefist vel þar sem henni hefur verið beitt. Þá hefur tæknilausnum í bankaþjónustu fleygt gríðarlega fram og samgöngur verða æ betri á landinu.“

Þá segir að umfang útibúanetsins verði „óhjákvæmilega áfram til skoðunar,“ en það er sagt umfangsmikið miðað við önnur Norðurlönd.

Bæjarstjórn fordæmir lokanirnar

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum í dag bókun þar sem ákvörðunin er fordæmd. Minnt er á að tæp tvö ár séu síðan bankinn ákvað að loka útibúi sínu á Stöðvarfirði og var viðskiptavinum þaðan vísað yfir á Fáskrúðsfjörð. 

„Útibú Landsbankans á Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði og Eskifirði voru einu bankaútibúin í þessum byggðarkjörnum og verið starfrækt í árafjöld. Hafa íbúar þessara byggðakjarna nú ekki um neina bankaþjónustu að velja nema að sækja hana í aðra byggðakjarna. Því fordæmir bæjarstjórn Fjarðabyggðar þessa ákvörðun Landsbankans og hafnar henni með öllu.“

Á Stöðvarfirði notaði hagræddi Íslandspóstur um leið og lokaði sinni afgreiðslu en fyrirtækin deildu þar húsnæði. Sama fyrirkomulag hefur ríkt á Fáskrúðsfirði og hafa íbúar þar áhyggjur af hugsanlegri lokun Póstsins.

Viðbrögðin við yfirlýsingu Jens Garðar um vistaskiptin eru misjöfn. Margir virðast ætla að fylgja fordæmi hans en aðrir minna á að Sparisjóður Norðfjarðar sé nýbúinn að loka útibúi sínu á Reyðarfirði og sé því lítið betri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.