Ísing lamaði Lagarfossvirkjun

Ísing í Lagarfossvirkjun varð til þess að báðar vélar stöðvarinnar slógu út aðfaranótt mánudags. Nokkurn tíma getur tekið að losna við ísinguna og koma orkuvinnslu aftur á fulla ferð.

Samkvæmt tilkynningum frá Landsneti leysti fyrri vélin út klukkan hálf tvö aðfaranótt mánudags og sú seinni þremur tímum síðar.

Hjá Orkusölunni, sem rekur stöðina, kallast fyrirbærið sem myndaðist grunnstingull. Það myndast í frosti eða fljót eða ár eru ekki lagðar ís, heiðskýrt er á himni og útgeislun sterk út í himinhvolfið.

Pálmi Sigurðsson, stöðvarstjóri, segir að við þessar aðstæður myndist ísnálar sem hlaðist upp á hlutum sem vatnsstraumurinn brýtur á, jafnvel þótt þeir séu á miklu dýpi. Þessar nálar má oft sjá á steinum í lækjum.

Afleiðingar þessa eru ísinn stíflar inntaksristar virkjunarinnar. Pálmi segir þetta gerast nokkrum sinnum á hverjum vetri í Lagarfossvirkjun og á annan sólarhring geti tekið að losna við ísinguna. Það bitni á orkuvinnslunni á meðan.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti hafði rekstrarstoppið í Lagarfossi ekki teljandi áhrif á dreifingu raforku á landsvísu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.