Icelandair vill hraða uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli

Icelandair Group telur hagkvæmast að byggja flugvöllinn á Egilsstöðum upp sem varaflugvöll fyrir Keflavíkurflugvöll. Félagið varar hins vegar við hugmyndum um gjaldtöku til uppbyggingar varavöllum.

Þetta kemur fram í umsögn Icelandair Group, sem undirrituð er af forstjóranum Boga Nils Bogasyni, um grænbók ríkisins um framtíðarstefnu í flugmálum.

Í grænbókinni sjálfri er fjallað um mikilvægi þess að byggja upp flugvelli sem hlaupið geti undir bagga ef völlurinn í Keflavík lokast og bent á að völlurinn á Egilsstöðum standi þar best að vígi því þar þurfi minnstan tíma til undirbúnings og kostnaðurinn sé lægstur, auk umhverfisþátta.

Undir þetta er tekur Icelandair Group og hvetur til þess að framkvæmdum verði hraðað. „Nauðsynlegt er að forgangsröðunin sé skýr og fjármunum hins opinbera sé ekki dreift til uppbyggingar á mörgum flugvöllum heldur verði byggð upp fullnægjandi aðstaða á einum flugvelli sem yrði þá fyrsti varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll.

Félagið hefur bent á að Egilsstaðaflugvöllur sé best fallinn til slíkrar uppbyggingar, meðal annars vegna þess að þar er fjallendi langt í burtu og aðkoman hentug með tilliti til vinds, aðflugs og brottfluga,“ segir í umsögninni.

Hugmyndir hafa verið uppi um að fjármagna framkvæmdir við varaflugvellina með sérstöku gjaldi. Icelandair telur hana ólöglega, geta skaðað fyrirtækið í alþjóðlegri samkeppni auk þess að vera beinlínis íþyngjandi í rekstri þess.

Flugfélögin Air Iceland Connect og Icelandair, sem bæði eru í eigu Icelandair Group, gera ráð fyrir að flytja um 5 milljónir farþega á árinu 2019. Miðað við álagningu gjalds að fjárhæð 300 kr. á hvern flugfarþega myndi gjaldtakan þýða auknar álögur að fjárhæð 1,5 milljarða kr. á Icelandair Group. Til samanburðar skilaði félagið tapi að fjárhæð 6,4 milljörðum kr. á árinu 2018 og hlýtur því að gefa augaleið að svigrúm til aukinnar álagningar gjalda er ekkert.“

Félagið leggur þess í stað til að framkvæmdirnar verði fjármagnaðar af skatttekjum sem vaxandi ferðaþjónusta standi að miklu leyti undir.

Ennfremur hvetur Icelandair Group til þess að haldið verið áfram athugunum á framtíðarflugvelli sem hýst gæti bæði millilanda- og innanlandsflug. Fullkanna þurfi hvort slíkur völlur eigi að vera í Hvassahrauni eða hvort aðrir staðir henti betur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.