Icelandair: „Verðum að vinna traustið til baka“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir félagið ákveðið í að bæta þjónustu sína í innanlandsflugi til að vinna upp traust sem glatist hafi vegna tíðra raskana síðustu mánuði. Þegar hafi verklagi hjá félaginu verið breytt til að koma móts við flugfarþega.

„Síðustu dagar hafa verið fínir. Það ætti að komast meiri stöðugleiki á flugið nú þegar allar vélar eru til reiðu,“ segir Bogi Nils.

Hann mæti til fjarfundar með austfirsku sveitarstjórnarfólki í morgun ásamt Tómasi Ingasyni, framkvæmdastjóra leiðakerfis og sölu og Guðnýju Höllu Hauksdóttur, forstöðumanni þjónustuupplifunar, til að ræða stöðuna í innanlandsflugi í ljósi mikilla í ítrekaðra raskana sem orðið hafa síðustu mánuði.

Tómas og Bogi ásamt Sylvíu Kristínu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóri markaðs- og þjónustumála, komu austur í júní til fundar við sveitarstjórnarfólk eftir mikil vandræði í fluginu, einkum í byrjun sumars, þegar bilanir komu upp í vélum ofan í önnur vandræði sem verið höfðu. Að undanförnu hefur aftur syrt í álinn og var síðasta vika slæm. Botninum var náð þegar morgunflugi á laugardag var aflýst. Síðan á mánudag hefur flugið hins vegar verið á áætlun.

„Ef við horfum á sumarið þá urðu verulegar tafir á stórskoðunum véla sem leiddu til truflana á flugi í vetur, vor og inn í sumarið. Við höfum líka notað sama flota innanlands og til Grænlands og þar var í sumar óvenjulegt veður þar sem þoka truflaði flugið. Síðan hafa komið upp tæknibilanir sem við áttum ekki von á.

En síðan er líka hlutir sem við getum gert betur og þá verðum við að laga til að vinna traustið til baka,“ segir Bogi Nils.

Flotinn á að ráða vel við áætlunina

Icelandair notar fimm flugvélar í Grænlandsflugið og innanlands, tvær 76 sæta og þrjár helmingi minni. Mestu raskanirnar hafa orðið þegar önnur af stóru vélunum hefur óvænt fallið úr leik. Bogi hefur þó trú á að félagið hafi þann flota sem það þarf.

„Þegar allt er eðlilegt þá á þessi floti að ráða við flugáætlunina okkar og gott betur, því það er alltaf reiknað með einhverjum sveigjanleika. Þegar allt leggst þó á eitt fara hlutirnir svona.

Eftir sameiningu innanlandsflugsins við Icelandair eigum við auðveldara með að taka vélar úr millilandafluginu ef þarf. Við höfum gripið til þess, til dæmis síðasta laugardag þegar upp komu óviðráðanlegar aðstæður.“

Bogi viðurkennir að félagið finni áþreifanlega fyrir því að traust í þess garð hafi dvínað síðustu mánuði. „Við heyrum að fólk er óöruggt um hvort áætlanir standist. Það er rétt að stundvísin hefur verið langt undir því sem við sættum okkur við. Þess vegna er mikill fókus á innanlandsflugið innan Icelandair og við gerum allt til að vera með áreiðanlega flugáætlun.“

Þegar aukið sveigjanleika

Þá hefur félagið einnig verið gagnrýnt fyrir ónóga, misvísandi eða jafnvel ranga upplýsingagjöf og lítinn sveigjanleika þegar eitthvað komi upp á. „Við erum að fara yfir upplýsingagjöfina og ætlum okkur að bæta hana. Varðandi sveigjanleikann þá þekkjum við að innanlandsmarkaðurinn er öðruvísi en millilandamarkaðurinn.

Við töluðum um að við myndum skoða stöðuna eftir sumarvertíðina og erum að búa okkur í það en við höfum þegar gert breytingar því við viljum þjónusta þessa markaði vel. Til dæmis var reglan áður sú að töf þurfti að vera upp á fimm tíma til að réttur myndaðist til endurgreiðslu en við höfum stytt tímann niður í tvo tíma. Það hjálpar svo aftur til við réttindi gagnvart Loftbrúnni.“

Hann segist ánægður með samtalið við fulltrúa Austfirðinga. „Mér fannst fundurinn í morgun mjög fínn. Það var gott að fara yfir þær upplýsingar sem fyrir liggja með opinskáum hætti. Við vitum að flugfélagið er mikilvægt fyrir Austfirðinga og þegar þjónustan er ekki í lagi er gott að eiga samtalið. Á móti kemur að það er ekki einfalt að reka flugfélag því það er með dýra og fjármagnsfreka innviði.

Við sjáum líka tækifæri til að vinna þétt með Austfirðingum. Við sjáum tækifæri í að ferðafólk kaupi sér miða beint út á land og í því er að verða ágætt flæði. Við teljum Austurland eiga mikið inni hvað ferðaþjónustu varðar og við ætlum okkur að halda áfram samstarfi við heimafólk um að nýta þau tækifæri betur saman.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.