„Í fortíðinni kann framtíð þessa staðar að leynast“

Aldursgreining liggur nú fyrir á viðarkolsýni sem sent var til rannsóknar úr húsarústum sem fundust við fornleifauppgröft á Stöð í Stöðvarfirði í nóvember. Dr. Bjarni F. Einarsson forleifafræðingur á Fornleifafræðistofunni segir að sýnið sé frá 9. öld.



„Nánar tiltekið má segja að sýnið sé einhverntíman á bilinu 775-790 eða 800-895 með leiðréttingu og 68% öryggi. Ef miðað er við 95% öryggi og leiðréttingu er sýnið frá 770-905 eða 920-965 en þetta síðara bil er ólíklegra. Því er hægt að segja með mikilli vissu að sýnið sé frá 9. öld en ekki nákvæmar í bili.

Svo kemur önnur greining bráðlega sem er til rannsóknar hjá Jarðfræðistofnun Íslands. Hún er úr gjósku úr veggjum hússins og hún getur enn frekar sagt til um nánari aldursgreiningu.“


Yrði fyrsti aldursgreindi skálinn á Austfjörðum

Bjarni segir að frekari rannsóknir þurfi til þess að sjá hvort sýnið sé úr sjálfum landnámsskálanum eða byggingu honum tengdum.

„Þó svo í ljós komi að þetta sé vinnuhús en ekki skálinn, þá er hann samt í allra næsta nágrenni vegna þess að þau stóðu yfirleit aldrei ein og sér, heldur voru alltaf hluti af landnámsbæ,“ segir Bjarni.

Bjarni segir að um fyrsta staðfesta landnámsskálann á Austfjörðum yrði að ræða, en enginn aldursgreindur skáli er frá Höfn og niður í Mývatnssveit.

„Hins vegar er það svo að til eru meintir skálar á svæðinu, en það má sjá bæði í örnefnaskrá og í ýmsum skýrslun. Á Brennistöðum í Eiðaþinghá rannsakaði prófessor Steinunn Kristjánsdóttir meintan skála og fleiri hús sem hún aldursgreindi til landnámsaldar út frá gjóskulögum, en skálinn var mun eldri en 1362 og stóð ofan á landnámslaginu frá 871+2.

Eins er líklegt að skála sé að finna við Geirsstaði í Hróarstungu, en hann er ekki staðfestur. Þar skammt hjá var jarðhýsi rannsakað og það var frá 10.-12. öld sem styrkir tilgátuna um að skálinn kunni að vera jafn gamall. Fleir forkannanir og prufuskurðir hafa verið framkvæmdir á austfjörðum, en engin skáli hefur verið rannsakaður til hlýtar.“

Bjarni segir niðurstöðuna gefa tilefni til að ætla að minjarnar kunni að vera eldri en hið hefðbundna landnám, en til a staðfesta að svo sé þarf frekari rannókna við.


Rannsóknum verður haldið áfram í sumar

Sótt hefur verið um í styrk til Fornminjasjóðs til að halda áfram uppgreftri í Stöð.

„Ég útbjó skynsamlega fjárhagsáætlun og sótti um fimm milljónir sem ættu að duga til þess að gera þokkalega rannsókn á svæðinu sem fyrsta skref.

Við stefnum á að hefjast handa í júní, en rannsóknin mun líklegast teygja sig yfir þrjú sumur,“ segir Bjarni.


Þetta er þolinmæðisvinna og alls ekki fyrir stressaða

Björgvin Valur Guðmundsson á Stöðvarfirði, segir að auk styrksins sem sótt hefur verið um til Fornminjasjóðs verði einnig sótt í austfirska sjóði og fyrirtæki, auk þess sem söfnun frjálsra framlaga haldi áfram á reikningnum 0167-15-380300 kt. 620211-2490)

„Þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi og niðurstöður eins góðar og hægt er. Þetta gerist ekki á einni nóttu og getur tekið mörg ár, þetta er þolinmæðisvinna og alls ekki fyrir stressaða.

Nú er það okkar hér fyrir austan að sameinast um þetta verkefni og tryggja enn frekara fjármagn til áframhaldandi rannsókna, en í fortíðinni kann framtíð þessa staðar að leynast,“ segir Björgvin Valur.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.