Í fínu formi á ferð um Austfirði

Í fínu formi, kór eldri borgara á Akureyri, er á leiðinni austur og mun halda tvenna tónleika á svæðinu í vikunni. Kórfélagi segir mikla eftirvæntingu í hópnum og gleði yfir að halda í tónleikaferð á ný.

„Þetta er mikill kór. Við erum samtals 65 í ferðinni, þar af 45 sem eru í kórnum,“ segir Freysteinn Bjarnason, fyrrum framkvæmdastjóri SÚN sem er í kórnum, líkt og eiginkona hans, Ingibjörg Árnadóttir.

„Við fórum með Sveini Sigurbjarnarsyni hjá Tanna Travel til Færeyja sumarið 2019. Sú ferð var mjög skemmtileg og þá um haustið ákváðum við að halda um vorið austur um land. Við vitum hvað gerðist svo,“ segir Freysteinn.

Þrátt fyrir nokkurt hlé ber kórinn núna nafn með réttu því hann er nýlega búinn að halda tónleika á Akureyri sem tókust vel. Freysteinn segir efnisskrána fjölbreytta, á dagskrá séu bæði íslensk og erlend lög sem notið hafa vinsælda, þótt nokkur séu komin til ára sinna. Petra Björk Pálsdóttir stjórnar kórnum en Valmar Väljaots spilar undir.

Auk tónleikahaldsins heyrist reglulega í kórnum í útvarpi. „Það er þáttur á föstudagsmorgnum á Rás 1 þar sem við syngjum lagið „Byggðasafnið“. Það er eftir mann austan af Héraði og öll hans ætti sendir honum reglulega kveðju með laginu.“

Kórinn heldur tvenna tónleika eystra. Á Eskifirði á morgun, þriðjudag 10. maí klukkan 18:00 og í Egilsstaðakirkju á miðvikudag kl. 18:00. Kór kirkjunnar tekur einnig þátt í tónleikunum. Fyrir mistök voru rangar tímasetningar birtar í auglýsingu í Dagskránni.

Utan tónleikanna ætlar kórinn að njóta Austfjarða. „Það er margt að gerast á Austurlandi og iðandi mannlíf. Við heimsækjum nokkur söfn og eftir tónleikana á Eskifirði borðum við þar. Þá verður búið að koma fyrir skjá þannig við getum fylgst með Eyþórsdætrum syngja í Evrópusöngvakeppninni,“ segir Freysteinn að lokum.

Í fínu á formi í Færeyjaferð 2019. Mynd: Félag eldri borgara á Akureyri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.