Hvorki meiri líkur né minni á formlegum viðræðum

Útlit er fyrir að það ráðist síðar í dag hvort af formlegum viðræðum verði milli Sjálfstæðisflokks og Héraðslista um myndun meirihluta í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs. Fráveitumál hafa reynst erfið í óformlegum viðræðum.


„Það er hvorki meiri líkur né minni á að við förum í formlegar viðræður,“ segir Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Héraðslisti og Sjálfstæðisflokkur hafa undanfarin fjögur ár starfað saman í meirihluta með Á-lista. Á-listinn bauð ekki fram aftur en tilfærsla fylgis í kosningunum á laugardag varð með þeim hætti að framboðin tvö eru með sama fulltrúafjöldi og fyrri meirihluti. Þau hafa síðan kannað grundvöll fyrir áfram haldandi samstarfi.

Ólíkar lausnir í fráveitumálum þéttbýlisins á Héraði var eitt stærsta kosningamálefnið í vor og þar greindi Héraðslista og Sjálfstæðisflokk á. RÚV hafði eftir Steinari Inga Þorseinssyni, oddvita Héraðslistans, að hann teldi meiri líkur en minni að lending náist í fráveitumálunum í dag og samhljómur sé um önnur mál.

Í samtali við Austurfrétt sagði Anna að ekki hefðu enn verið rædd önnur mál en fráveitan í samræðum framboðanna tveggja, en í öðrum málaflokkum sé sannarlega samhljómur. Líklega muni skýrast síðar í dag, eða kvöld, hvert framhald viðræðnanna verði.

Framboðin hafa bæði þrjá fulltrúa og geta því hvort um sig myndað meirihluta með Framsóknarflokknum sem kom tveimur bæjarfulltrúum að.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.