Hver er afstaða framboðanna til fiskeldis í Seyðisfirði?

Frambjóðendur til sveitarstjórnar Múlaþings vilja flestir finna flöt á því að hlusta á og koma til móts við gagnrýni á fyrirhugað fiskeldi í Seyðisfirði. Eitt framboð hafnar fiskeldinu alfarið meðan önnur segja vald sveitarfélagsins takmarkað.

Fiskeldisspurningin var sú fyrsta sem borin var upp á framboðsfundi sem Austurfrétt stóð fyrir ásamt Múlaþingi á laugardagskvöld. Kallað var eftir skýrri afstöðu framboðanna til fiseldisáformanna og spurt hvort þau væru hlynnt fiskeldi eða ekki.

Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði mikilvægt að hafa í huga hvaða vald sveitarfélagið hefði í málinu. Það væri umsagnaraðili en færi ekki með skipulagsvaldið. „Ég er fylgjandi öflugu atvinnulífi og er ekki á móti fiskeldinu,“ sagði hún.

Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti Framsóknarflokks, tók einnig fram að sveitarfélagið hefði ekki úrslitaákvörðunina og svo virðist sem fátt komi í veg fyrir að eldi fari af stað í firðinum. Hún lýsti líka vonbrigðum með takmarkaðar tekjur sem sveitarfélög fái af eldinu. „Við erum fylgjandi fiskeldi en að því gefnu að um það sé sátt í samfélaginu sem er ekki,“ sagði hún og bætti við að hún vonaðist til að fundinn yrðu leiðir til frekari samræðna við íbúa Seyðisfjarðar.

Eyþór Stefánsson, sem skipar annað sætið hjá Austurlistanum, kom einnig inn á að sveitarfélagið hefði ekki skipulagsvaldið. „Við getum bókað um hvaða málefni sem okkur sýnist en það eru aðrir leyfisveitendur, ríkisstofnanir og ráðherra, sem hafa nú um málið að segja. Þetta er erfitt, sjálfur er ég ekki í prinsippinu á móti fiskeldi en hugnast það illa í húrrandi trássi við vilja íbúa.“

„Ákvarðanalega hefur sveitarstjórn lítið að segja en það á ekki að pína eitt né neitt upp á neina. Ef andstaðan er mikil eiga íbúarnir að fá að ráða. Ég bið Seyðfirðinga þó um að skoða málin til enda og vera tilbúna að taka afleiðingunum, hverjar sem þær verða,“ sagði Þröstur Jónsson, oddviti Miðflokksins. Örn Bergmann Jónsson, sem er í þriðja sætinu, viðraði hugmynd um íbúaþing til að gefa íbúum meiri rödd.

„Við viljum ekki fiskeldi í Seyðisfjörð. 55% íbúa skrifuðu undir yfirlýsingu um að þeir vildu ekki fiskeldi. Við styðjum íbúa þegar verndun náttúrunnar er annars vegar. Við neitum þessu hugarfari um að við höfum ekkert um málið að segja – við höfum allt um þetta að segja ef við viljum það,“ sagði Helgi Hlynur Ásgrímsson, fyrsti maður á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, sem skipar annað sæti listans, kom inn á sjókvíaeldið í framsöguræðu sinni. Hún sagðist nýverið hafa flust til Seyðisfjarðar, þvert yfir landið en áformin skytu skökku við það sem hún hefði sóst eftir, náttúru, menningu og mannlíf. Hún bætt við að sér virtust fyrirheit við tilurð Múlaþings, um íbúalýðræði og sérstöðu hvers byggðarlags, fótum troðin með eldinu.

Heyra má nákvæmari svör framboðanna við fiskeldisspurningunni, sem og svör þeirra við öðrum spurningum, í spilaranum hér að neðan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.