Hvalurinn af Norrænu rekinn aftur á land
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. júl 2025 15:31 • Uppfært 09. júl 2025 15:35
Hnúfubakur, sem lenti framan á Norrænu á leið hennar til Seyðisfjarðar um miðjan júní, er aftur rekinn upp í fjöru – að þessu sinni í Berufirði. Framhald hræsins er nú á ábyrgð landeiganda.
Hvalurinn var framan á stefnu Norrænu þegar hún kom til hafnar á Seyðisfirði fimmtudaginn 19. júní síðastliðinn. Hvalurinn var losaður af skipinu og síðan dreginn á haf út þar sem átti að sökkva honum. Helst er talið að hvalurinn hafi verið dauður þegar hann lenti á skipinu.
Að sökkva hval er vandasamt verk. Í fyrsta lagi þurfa skip og kaðlar að vera nógu öflug til að ráða við hann, en í verkið var fengið björgunarskip úr Neskaupstað. Eins myndast í honum gös við rotnun þannig hræin geta flotið.
Þess vegna þarf að stinga gat á bolinn til að hræið sökkvi til botns. Þar þarf að hitta á réttan stað, annars getur hvalurinn sprungið með tilheyrandi hættu eða ekki sokkið. Þess vegna er þetta síðasti kosturinn í verklagsreglum um hvalreka. Fyrsti kostur er að láta náttúruna sjá um hræið, sé ekki ami af því, annars að urða það.
Svo virðist sem aðgerðirnar í júní hafi ekki lukkast nógu vel því hvalurinn er svo að segja genginn aftur, rekinn upp á land fyrir neðan Hamraborg í Berufirði. Samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun, sem er ein þeirra stofnana sem kemur að viðbrögðum vegna hvalreka, bárust fyrst upplýsingar í síðustu viku um að hræið væri komið þangað og var þá enn á floti.
Stofnunin hefur staðfest með sýnatöku að um sé að ræða sama hval og lenti á Norrænu. Á honum eru einnig bönd eftir að hann var hífður af skipinu og síðan dreginn í burtu.
Þar fengust einnig þær upplýsingar að frekari ákvörðun um hvað gert verði við rekann nú sé í höndum landeiganda.
Frá því hnúfubakurinn kom til Seyðisfjarðar með Norrænu. Hræið er ekki jafn ferskt að sjá núna. Mynd: Aðsend