Skip to main content

Hvalur lenti framan á stefni Norrænu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. jún 2025 11:43Uppfært 19. jún 2025 11:45

Talsverð vinna var að losa hval af stefni Norrænu eftir að hún kom til hafnar á Seyðisfirði í morgun. Ferjan sigldi þó engu að síður frá Seyðisfirði á réttum tíma.


„Við fylgdumst með ferjunni koma inn og sáum að það var óvenju mikil bógalda. Síðan sáum við að hvalur hékk fram af stefninu,“ segir Rúnar Gunnarsson, hafnarvörður á Seyðisfirði.

„Stjórnendur ferjunnar vissu heldur ekki neitt, bara að þeir hefðu keyrt á eitthvað,“ bætir hann við.

Böndin slitnuðu


Áreksturinn varð um klukkan sjö í morgun en skipið var þá statt austur af Gerpissvæðinu. Það tafði þó ekki að skipið kæmi til hafnar á tilsettum tíma um 8:30 í morgun. Töluvert átak þurfti til að það færi aftur samkvæmt áætlun tveimur tímum síðar en það tókst.

„Þetta var talsvert bras. Við fengum hjólaskóflur með stroffur sem slitnuðu enda er þetta sennilega um 20 tonna dýr. Að lokum var landfestum ferjunnar slakað niður, sporðurinn festur í þær og hvalurinn síðan hífður af perunni.“

Fjölmenni fylgdist með af hafnarbakkanum


Hræið er bundið við bryggju á Seyðisfirði en beðið er nánari leiðbeininga frá þar til bærum stofnunum samkvæmt reglum um viðbragði við hvalreka um hvað eigi að gera við hræið. Talið er að um hnúfubak sé að ræða en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um hvort dýrið hafi verið dautt áður en skipið keyrði á það eða hversu gamalt það hafi verið.

Rúnar segist ekki hafa séð svona áður. „Þetta vakti athygli, það voru margir sem fylgdust hér með. Ég hef ekki séð svona áður en ég hef bara verið hafnarvörður síðan 2018. Hins vegar hefur skipstjóri Norrænu stýrt skipum í 30 ár og aldrei lent í þessu.“

Í þessu samhengi má þó rifja upp að Beitir, skip Síldarvinnslunnar, sigldi á hvalshræ haustið 2022. Lýsi sem lak úr hvalnum myndaði brák í sjónum sem sást á gervitunglamyndum.

Mynd: Aðsend