Hvað má sveitarfélagið heita?

Örnefnanefnd mælir með nöfnunum Múlaþinghá og Múlabyggð í umsögn sinn um nafn nýs sameinaðs sveitarfélags á Austurlandi. Fjórar aðrar nafnahugmyndir fá þá umsögn að nefndin leggist ekki gegn þeim. Íbúar kjósa um nafn á laugardag.

Í byrjun árs var auglýst eftir hugmyndum að nafni á sameinað sveitarfélag Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Alls bárust tillögur um 67 mismunandi nöfn. Nafnanefnd sveitarfélaganna fór yfir tillögurnar og sendi sautján tillögur áfram til Örnefnanefndar til umsagnar.

Nefndin hefur meðal annars það hlutverk að gæta þess að ný örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði, málvenju, staðhætti og örnefnahefð. Í megin sjónarmiðum nefndarinnar um nöfn sveitarfélaga segir meðal annars að æskilegt sé að að stjórnsýsluheiti sé mynduð með hliðsjón af einhvers konar kerfi sem auðveldi málnotendum að átta sig á að um sé að ræða stjórnsýsluheiti, en ekki nafn á landsvæði, og skilja hvers konar stjórnsýslu sé um að ræða.

Nöfnin sem Örnefnanefnd fékk til umsagnar eru flest samsett. Forliðurinn vísar gjarnan til landsvæðisins en seinni liðurinn gefur til kynna að um sé að ræða sveitarfélag. Nefndin veitti því umsagnir annars vegar um forliðina og hins vegar seinni liðina, frekar en einstök nöfn.

Forliðirnir

Forliðirnir sem nefndin fékk til umsagnar voru Austur-, Eystri/a-, Dreka- og Múla-.

Nafnanefnd sveitarfélaganna rökstuddi forliðinn Austur- með vísan í höfuðáttina. Fyrir því séu fordæmi, til dæmis Norðurþing. Þá samkenni íbúar hins nýja sveitarfélags sig því að vera íbúar á Austurlandi.

Örnefnanefndin leggst ekki gegn forliðnum en telur hann ekki heppilegan því afmörkun áttatáknsins sé ógreinileg í samhenginu. Hægt sé að lýsa mörgum sveitarfélögum þannig að þau séu austar en önnur. Þetta henti illa þegar horft sé til legu annarra sveitarfélaga á Austurlandi. Þá samræmist liðurinn illa íslenskri örnefnahefð.

Rökstuðningur nafnanefndarinnar við forliðinn Eystri/a- var á svipaður, nema bætt var við að orðið væri þekkt frá Borgarfirði eystra og gæti verið atviksorð sem þýddi fyrir austan.

Örnefnanefnd lagðist gegn liðnum. Fordæmin fyrir notkun hans væru skýr í samanburði við önnur svæði en í þessu tilfelli væri viðmiðunin óljós, meðal annars út af öðrum sveitarfélögum á Austurlandi en hið nýja sveitarfélag umlykur Fjarðabyggð úr öllum áttum öðrum en austri. Þá þótti liðurinn óheppilegur með vísan til byggða norrænna manna á Grænlandi sem kölluðust Eystribyggð og Vestribyggð.

Drekaheitið kemur til út frá landvætti Austurlands. Örnefnanefnd lagðist gegn þessum forlið með þeim rökum að hefð væri fyrir því að nefna staka staði hérlendis, en ekki landssvæði, eftir drekum eða öðrum landvættum. Staðan væri önnur ef áberandi kennileiti svæðisins væri kennt við dreka. Þá er bent á að í Heimskringlu birtist drekinn í Vopnafirði sem sé utan hins sameinaða sveitarfélags.

Múlanöfnin

Múla- er eini forliðurinn sem Örnefnanefnd mælir með. Þar er vísað til fjallsins Þingmúla í Skriðdal, sem er þekkt kennileiti svæðisins og þar fóru áður fram vorþing Austfirðingafjórðungs. Nefndin segir forliðinn falla vel að markmiði um að ný örnefni séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð og telur það ekki annmarka þótt sýslur svæðisins og fleira hafi verið kennt við Þingmúla.

Nefndin gerir reyndar athugasemd við nafnið Múlaþing, þótt hún að öðru leyti mæli með seinni liðnum –þing, sem sé algengt í nöfnum sveitarfélaga. Eitt af viðmiðum Örnefnanefndar er að ný heiti raski ekki merkingu rótgróinna heita. Hið forna Múlaþing hafi átt við allt Austurland auk þess sem enn sé starfandi tímarit með þessu heiti sem komið hafi út frá árinu 1966. Nefndin leggst þó ekki gegn nafninu.

Nefndin mælir hins vegar með seinni liðnum –þinghá. Orðið „þing“ á bæði við þá sem sækja slíka samkomu og þá sem búa á svæðinu. Viðskeytið –há afmarki það enn frekar við umdæmið. Þá á orðið sér stoð í örnefnum á svæðinu svo sem Eiðaþinghá, Hjaltastaðaþinghá og Hálsþinghá.

Byggð og byggðir

Annar seinni liður sem Örnefnanefndin mælir með er –byggð sem mikið hefur verið notað í íslenskum sveitarfélagaheitum, einkum þar sem er mikið dreifbýli eða fleiri en einn stór þéttbýliskjarni.

Hún leggst hins vegar gegn liðnum –byggðir, sem er talinn geta skapað rugling.

Eins leggst nefndin gegn nafninu Sveitarfélagið Austri, sem nafnanefndin rökstuddi með vísan í dverginn Austra úr norrænni goðafræði. Örnefnanefnd telur heitið ekki samræmast örnefnahefð auk þess sem á Eskifirði starfi Ungmennafélagið Austri. Heitið geti því talið tengjast Eskifirði sérstaklega.

Umdeild nöfn

Að fenginni umsögn Örnefnanefndar kom nafnanefnd sveitarfélaganna saman og ákvað þá að leggja til að kosið yrði milli þeirra nafna sem Örnefndanefnd mælti með, og lagðist ekki gegn, að því frátöldu að heitið Austurbyggð kæmi ekki til greina. Það hefði verið notað á sameinað sveitarfélag Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar sem sameinaðist Fjarðabyggð, Fáskrúðsfjarðarhreppi og Mjóafjarðarhreppi 2006. Undirbúningsstjórn um sameiningu sveitarfélaganna ákvað hins vegar á fundi sínum að bæta við valkostinum Drekabyggð. Ekki var þó einhugur um það í undirbúningsstjórninni, fimm fulltrúar kusu með því, fjórir á móti og þrír sátu hjá.

Hvernig verður kosið?

Kosið verður um nafn samhliða forsetakosningum á morgun. Reyndar er réttara að tala um könnun því niðurstöðurnar eru ekki bindandi heldur leiðbeinandi. Þær fara fyrst fyrir nafnanefnd og síðan fyrir nýja sveitarstjórn sem aftur sendir nafnið til sveitarstjórnarráðuneytisins. Fordæmi eru fyrir því að sveitarstjórn hafi lagt til annað heiti, bæði eftir kosningu og álit Örnefnanefndar, eins og raunin varð með Suðurnesjabæ. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst er von á niðurstöður nafnavalsins seint á sunnudag.

Notast verður við raðval þannig að kjósendur geta merkt fyrsta og síðan annan valkost. Þá geta íbúar sextán ára og eldri kosið sem og erlendir ríkisborgarar sem hafa kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum.

Um þessi nöfn verður kosið:

Austurþing
Austurþinghá
Drekabyggð
Múlabyggð
Múlaþing
Múlaþinghá

Álit Örnefnanefndar
Mælt með: Múlabyggð, Múlaþinghá
Ekki lagst gegn: Austurbyggð, Austurþing, Austurþinghá, Múlaþing

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.