Hvað höfðu biskupsefnin að segja á Austurlandi?

Kosningu til biskups Íslands lýkur á morgun. Nýverið héldu biskupefnin þrjú: Guðmundur Karl, Brynjarsson, Guðrún Karls Helgudóttir og Elínborg Sturludóttir sameiginlegan fund í Egilsstaðakirkju, sem var hluti af hringferð þeirra. Austurfrétt greip niður í helstu spurningar og svör frá fundinum.

Hver verða fyrstu tvö verkefnin ykkar?
Guðmundur: Að kynnast nánasta samverkafólki mínu og síðan fara út með hundinn.
Elínborg: Að ganga Jakobsveginn frá upphafi til enda. Á leiðinni hugsa ég hvernig ég verði sá biskup sem gagnist þjóðkirkjunni sem mest. Í öðru lagi er það að leita eftir góðu samstarfsfólki.
Guðrún: Að biðja, þakka Guði og leggja verkið í Guðs hendur því hann þarf að leiða okkur áfram. Ég vil heyra í samstarfsfólki og gjarnan hverri kirkjuþingsmanneskju.

Víða um land skortir organista og kirkjutónlistarfólk. Hvernig er hægt að bregðast við því?
Elínborg: Ég þekki þennan vanda víða á landsbyggðinni. Það er mikið tekið frá okkur þegar við höfum ekki organista eða öflugt tónlistarfólk með okkur. Tónskóli þjóðkirkjunnar getur verið með mikilvægt hlutverk við að þjálfa upp tónlistarfólk. Víða þarf að bregðast við með öðrum hætti. Þótt mér þyki vænt um orgelið þá er hægt að bregðast við með öðrum hætti og spila á önnur hljóðfæri.
Guðrún: Ég hef bæði orðið vör við litla söfnuði sem ekki hafa efni á að ráða organista eða enginn sækir um. Þá verðum við að vera skapandi með einhverjum hætti. Á Kirkjubæjarklaustri greiðir sveitarfélagið organistann. Það er mjög gott samstarf.
Guðmundur: Ég Held að vandinn liggi í að við prestarnir erum upp á nánast allt annað býtti komnir en annað starfsfólk kirkjunnar. Við erum starfsmenn Biskupsstofu meðan annað fólk er starfsfólk safnaðanna. Þá verður til vandamál með organistann, vel menntað fólk flækist fyrir. Ég hef ekki lausnina en verður að tala um þetta. Væri ósköp eðlilegt að hugsa einhvers konar útdeilingar úr jöfnunarsjóði gagnvart söfnuðum sem standa höllum fæti.

Hvað finnst ykkur um tónlist úr öðrum áttum sem fólk óskar eftir að sé flutt við athafnir?
Elínborg: Tónlistin er stór hluti af boðuninni í kirkjunni og þess vegna verðum við að standa vörð um hana og sálmasönginn þótt við opnum á fjölbreyttari tónlist í kirkjunni. Það er alls konar tilraunastarfsemi um allt land sem eflir starfið og það er af hinu góða.
Guðrún: Fólk vill fá alls kyns tónlist, persónulega finnst mér það í lagi svo lengi sem þetta er góð og falleg tónlist og textar og tónlist sem styður við athöfnina.
Guðmundur: Ég mjög fylgjandi að við hugsum út fyrir kassann um tónlistarflutninginn, ég er mögulega holdgervingur þeirrar stefnu í augum sumra. Í raun elska ég alla góða tónlist, engin tónlist er annarri æðri. Mikilvægt að benda fólki ef það sem er sungið er alls ekki viðeigandi en það er líka hægt að leggja út frá því og benda á að textarnir skipta fólkið máli.

Fólk ruglar saman trúarbrögðum eða veit ekki út á hvað kristin trúarbrögð ganga. Hvernig viljið þið auka Biblíufræðslu og þekkingu bæði barna og fullorðinna?
Guðrún: Þekkingin er orðin misjöfn. Við fáum jafnvel fermingabörn sem ekki þekkja faðirvorið. Ég er á því að við kirkjan eigi að taka þetta til okkar, ekki treysta á skólana. Námskráin er fín ef henni er fylgt en svo fer það eftir áhugasviði og aðstæðum í hverjum skóla. Ef þú þekkir ekki Biblíusögurnar þá er mikið í okkar þekkingu sem þú þekkir ekki.
Mig langar til að kirkjan útbúi gott gagnvirkt efni fyrir börn sem til dæmis ákveðnir árgangar um allt land fái. Þannig byggjum við smám saman upp þekkinguna. Fræðslumálin verið skorin niður eins og fleira í kirkjunni og það þurfum við að skoða.
Guðmundur: Við höfum alltaf möguleika á að breyta framtíðinni. Við getum ekki beðið eftir að aðrir taki þennan bolta, hann er í okkar höndum. Ég er í ritstjórn nýs vefjar á vegum þjóðkirkjunnar sem byggir á spennandi hugmynd. Fyrirtækið sem hannar vefinn segist ekki hafa séð slíkt áður og spurði hvort það mætti leggja fram til verðlauna. Hann býður ýmsa möguleika í fræðslu. Hann leysir ekki öll vandamál en býður upp á marga möguleika.
Elínborg: Við höfum sett á oddinn að hlúa að barna og æskulýðsstarfi. Það er á okkar ábyrgð og foreldra, getum ekki gert kröfu á skólana. En við verðum að bregðast við þessum breytta veruleika að börn í dag heyra ekki á sama hátt og okkar kynslóð Biblíusögurnar til að geta speglað sig í þeim og læra að finna réttu leiðirnar í að taka ákvarðanir um rétt og rangt og gildi okkar í lífinu. Ég held að við sem samfélag verðum að huga að því að trúarbragðakennsla í skólum geti aðeins verið til góðs. Ég held hún sé sérstaklega mikilvæg á okkar dögum þegar samfélagsgerð okkar er að breytast. Fólk úr ólíkum áttum sem talar ólík tungumál er koma inn í samfélagið. Það er sagt að maður læri lærir ekki önnur tungumál nema kunna sitt eigið vel.

Hvað finnst ykkur um fræðslu á Gamla testamentinu andspænis þeim gömlu trúarbrögðum sem fólk sækir í í dag?
Guðrún: Það er ljóst hver okkar játning og trú er en það er margt í okkar hefð sem hægt er að nota við iðkun sem er jafn mikilvægt og mætir jafnvel þörfinni og jóga, kakóserímóníum og öðru. Við bjóðum víða upp á djúpslökun og íhugun.
Guðmundur: Varðandi Gamla testamentið þá skiptir máli að við sjáum hjálpræðissöguna í þeirri heild að Jesús er ekki í loftbólu heldur uppfylling þeirra fyrirheita sem Gamla testamentið fjallar um. Það er mikilvægt að hafa það á hreinu gagnvart þessum austrænu trúarbrögðum. Við eigum Kyrrðarbænarsamtökin sem mæta leitandi fólki með orðinu, hjá þeim er fullt á hvert námskeið. Fólk er að leita er dolfallið hvernig Biblían mætir okkur í nútímanum.
Elínborg: Þurfum að vera dugleg að benda á það sem er í arfleifðinni, eins og bænalíf og íhugun eða pílagrímagöngurnar sem er ævagömul arfleifð. Fólk fór áður í pílagrímagöngur frá Íslandi til Rómar. Hvað er það að huga að liljum vallarins eða fuglum himins annað en núvitund?

Nú er fólk komið með eigin fjölmiðla í formi samfélagsmiðla. Verður kirkjan ein rödd eða verður fjölradda þar sem fólk kirkjunnar fær að tjá sig óhindrað um stóru málin? Hversu ákveðið munuð þið fylgja því eftir gagnvart starfsfólki?
Guðmundur: Ég afsalaði mér ekki málfrelsinu með að verða prestur en það skiptir máli hvernig ég set skoðun mína fram. Þegar einhver fer út af línunni, sé hún einhvers staðar, finnst mér eðlilegt að tekið sé á því sem starfsmannamáli en ekki fjölmiðlamáli, ef einhver er áminntur.
Guðrún: Við megum ekki bara tjá okkur heldur eigum að tjá okkur. Það er alltaf boðun þegar prestur tjáir sig. Við settum okkur siðareglur í Grafarvogskirkju um notkun samfélagsmiðla. Þær eru mikilvægar fyrir okkur öll. Prestur má tjá sig um hvað sem er en má ekki segja hvað sem er, til dæmis ekki vera með hatursfullan boðskap. Þá þarf að fara yfir hvað hægt er að gera í því.
Prestur er fulltrúi kirkjunnar og er það hvert sem hann fer. Þegar hann hefur opinberan miðil verður að muna að hann er ekki einn í heiminum.
Elínborg: Það er táknrænt að þegar presturinn stígur í predikunarstólinn fer hann úr höklinum til að minna á að hann talar í sínu orði þótt hann leggi út frá orði Guðs. Erum alltaf prestar og verðum því að vera orðvör, þurfum að standast siðareglur. Orð okkar mega ekki beinast að fólki eða hópum á niðurlægjandi hátt.

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur kirkjuna leiða umhverfismál?
Elínborg: Ég hef brunnið fyrir umhverfismálum um allnokkur skeið og ég held að kirkjan hafi þó nokkuð um hvernig sé brugðist við þeim vandamálum sem að okkur steðja. Við getum haft áhrif á hvaða málefni eru borin á borð því umhverfismálin eru siðferðismál. Kristin gildi hafa verið að lifa hófstilltu lífi og það rímar við þá sjálfbærnigildi sem eru rædd í dag.
Kirkjan getur haft áhrif á gildi okkar, hvernig lífsstíl við veljum okkur og hvernig við öxlum ábyrgð sem siðferðisverur í að fara vel með jörðina.
Guðrún: Umhverfismálin er ein af stóru spurningunum sem kirkjan mun standa frammi fyrir á næstu árum. Jörðin er náungi okkar og síðan eru það dýrin og dýrasiðferðin. Þetta kemur saman í umhyggju fyrir öllu sem er lifandi.
Guðmundur: Umhverfissiðferðin er í þriðju Mósebók, þar sem talað er um að passa upp á jörðina og hvíla hana á milli og svo framveigs. Biblían talar endalaust við okkur ef við höfum augun opin.

Hver er ykkar styrkleik til að taka við þessu starfi og leiða hóp presta, sem stundum eru eins og sundurlaus hjörð?
Elínborg: Ég held það sé dýrmætt að hafa verið prestur í sjávarþorpi, sveit og höfuðborginni. Sú breiða innsýn sé mikils virði. Að hafa búið erlendis í þremur löndum og kynnst kirkjustarfi. Að vera vel tengd, sem ég er.
Guðrún: Ég á auðvelt með að fá fólk með mér í verkefni, í sömu átt og vinna saman. Mér finnst gaman og auðvelt að vinna með ólíku fólki. Ég get hlustað á fólk og á auðvelt með að sjá hæfileika fólks. Ég þarf ekki að taka mest pláss heldur á auðvelt að lyfta öðru fólki. Ég kem líka til dyranna eins og ég er klædd.
Guðmundur: Mér hefur tekist vel að komast af við fólk, í 97,5% tilvika. Ekki alltaf en þannig er það. Ég hef þurft að taka á erfiðum málum. Það er ýmislegt hægt að gera með samtali og gangkvæmri virðingu. Ég hef reynt að temja mér þannig framkomu við fólk.

Vanmáttugir söfnuðir standa oft að baki litlum kirkjum til sveita. Kemur til greina að ég geti valið að láta sóknargjaldið renna til annarrar kirkju innan sama prestakalls en þeirrar sem ég tilheyri samkvæmt lögheimili?
Elínborg: Held það séu margir í þessum sporum. Ég held að við gætum þurft að skoða þetta, til dæmis vegna hve hefur fækkað í sveitum. Fámennið veldur að sóknin stendur ekki undir rekstri kirkjunnar og húsanna. Ég held held að Kirkjuþingið geti skoðað hvort hægt sé að velja að sóknargjöld innan prestakalls renni til ákveðinnar kirkju, eins og ekki þurfi allir í sóknarnefnd að eiga lögheimili innan sóknarinnar. Þetta er ekki í valdi biskups en hann getur hvatt til þess að þetta verði skoðað.
Guðrún: Þetta hefur komið fram á Kirkjuþingi en ekki náðst um það samstaða. Mögulega getur verið ótti við að á Reykjavíkursvæðinu vilji allir vera í sömu kirkjunni. Það hlýtur að vera hægt að skoða útfærslur á þessu, til dæmis með landsbyggðina í huga. Þetta getur verið leið til að leysa fjárhagsvanda á ákveðnum stöðum.
Guðmundur: Þetta getur verið góð leið en mikilvægt að skoða alla fleti. Ein kirkja getur liðið fyrir vinsældir annarrar við hliðina. Verðum að taka samtalið. Ég veit að þetta hefur verið gert í Noregi og gefist vel. Kannski er búið að segja A sem gæti leitt til B í framtíðinni.

Mynd: Þjóðkirkjan

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.