Hússtjórnarskólinn fær annað tækifæri: Gleðifréttir fyrir okkur og námið

Handverks- og hússtjórnarskólinn á Hallormsstað og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa náð samkomulagi um skólahald þar næsta vetur. Opnað var fyrir umsóknir um skólavist í morgun. Skólastjórinn segir ánægjulegt að hússtjórnarnámið fái tækifæri.


„Við getum ekki annað en verið ánægð með að hússtjórnarnámið fái þetta tækifæri. Það hefur alltaf tekið breytingum og aðlagað sig að breytingum í samfélaginu og menntakerfinu.

Á því er engin undantekning nú,“ segir Bryndís Fiona Ford, stjórastjóri á Hallormsstað.

Skólahald féll niður vegna nemendafæðar á vorönn. Ráðuneytið leit svo á að við það hefði orðið forsendubrestur í samningum við skólann, sem er einkarekin sjálfseignarstofnun. Í lok maí var síðan tilkynnt að ráðuneytið ætlaði ekki að endurnýja samninga við skólann á þeim forsendum að námsbraut hans, 30 eininga nám sem tekur eina önn, samræmdist ekki kröfum í aðalnámskrá.

Í kjölfarið mátu stjórnendur skólans stöðuna þannig að ekki væri hægt að bjóða upp á nám í haust og var væntanlegum nemendum tilkynnt um það. Um leið var ákvörðun ráðuneytisins harðlega mótmælt og gagnrýndu forsvarsmenn skólans vinnubrögð ráðuneytisins, forsendur ákvörðunarinnar og að með henni væri stutt hagnýtt nám sett út í kuldann.

Bryndís segir ekki búið að klára öll smáatriði nýs samnings en menntamálaráðuneytið sé til búið að veita skólanum tækifæri til aðlögunar. Samningurinn nú er til eins árs, líkt og tíðkast hefur. Í tilkynningu skólans segir að boðið verði upp á hefðbundið hússtjórnarnám á sviði matreiðslu og hannyrða.

„Það mun eiga sér stað samtal við aðila sem koma að iðn- og verknámi, áframhaldandi samstarf við ráðuneytið, menntamálastofnun og þá aðila sem vinna að námsskrármálum,“ segir Bryndís aðspurð um næstu skref.

Á hverri önn eru 22 pláss í boði í skólanum. Bryndís segir að búið sé að hafa samband við þá sem sótt höfðu um í vor og þeir hafi forgang að plássunum nú en eðlilega séu margir þeirra búnir að gera aðrar ráðstafanir.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir og hægt verður að sækja um á meðan pláss eru laus, eða þar til skólinn verður settur í kringum 28. ágúst.

Samkvæmt lögum ber að auglýsa allar kennarastöður og verður það gert á næstunni.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.