Samþykktu niðurrif Gömlu rafstöðvarinnar á Vopnafirði

Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps hefur samþykkt að húsið að Hafnarbyggð, einnig þekkt sem Gamla rafstöðin, 16 verði rifið. Deildar meiningar hafa verið um málið á Vopnafirði en húsið á sér merka sögu.

Meirihluti sveitarstjórn staðfesti á síðasta fundi sínum niðurstöðu skipulags- og umhverfisnefndar í málinu um að aflétta hverfisvernd af húsinu og samþykkti þar með að láta vinna vinnslutillögu vegna breytingarinnar. Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum meirihluta Framsóknarflokks og Betra Sigtúns en báðir fulltrúar minnihluta Samfylkingarinnar greiddu atkvæði á móti.

Minnihlutinn lét jafnframt bóka að ákvörðun sveitarstjórnar hafi ekki verið vel ígrunduð. „Það er mikilvægt að horfa ekki aðeins á málið út frá þörfum útgerðarinnar heldur einnig út frá menningar- og listalífi Vopnfjarðar. Sigvaldi Thordarson er einn merkasti arkitekt Íslandssögunnar og heimamenn eru svo heppnir með það að hann var Vopnfirðingur,“ segir meðal annars í bókun minnihlutans.

Húsið var upphaflega byggt yfir dísilrafstöð Vopnfirðinga en notkun hennar var hætt fyrir meira en áratug. Húsið er í dag í eigu útgerðarmanna á staðnum. Í vor óskaði Brim eftir að fá að kaupa húsið til niðurrifs á þeim forsendum að húsið hindri aðgang að starfsmannainngangi frystihúss fyrirtækisins auk þess sem húsið sé í slæmu ástandi.

Á móti kemur að Sigvaldi er í hópi þekktustu arkitekta á Íslandi og eftir hann liggja fjölmörg einbýlis- og fjölbýlishús auk bygginga víða um land. Hann var einnig þekktur fyrir að hanna oft húsgögn og innréttingar í þau hús sem hann teiknaði. Og sterkir litir voru einkennismerki hans í húsahönnun. Á wikipedia segir þanng: „Byggingar hans einkennast af sterkum litum oft gulum og bláum með hvítu sem nú eru oft kallaðir Sigvaldalitir.“

Minjastofnun á móti

Í bókun Samfylkingarinnar  er vitnað að Minjastofnun hafi í áliti sínu lagst gegn því að húsið verði rifið. „Minjastofnun telur að ekki hafi komið fram nægilega haldgóð rök sem réttlæti að gengið verði gegn niðurstöðu húsakönnunnar um varðveislugildi Hafnarbyggðar 16 með afnámi hverfisverndarákvæðis í gildandi deiliskipulagi.“ segir í áliti stofnunarinnar.

„Minjastofnun hvetur til þess að fundnar verði aðrar leiðir til að tryggja örugga aðkomu starfsfólks Brims hf. að vinnustað sínum svo komast megi hjá því að rífa húsið að Hafnarbyggð 16. Húsið hefur mikið gildi sem höfundarverk Sigvalda Thordarson arkitekts í hans heimabyggð og fyrir atvinnusögu Vopnafjarðar. Húsið gæti orðið lyftistöng fyrir bæjarfélagið, ef það yrði gert upp og því fundið nýtt hlutverk.“

Brotthvarf hússins hefur þó ekki þar með verið staðfest því Minjastofnun getur enn gripið inn í ferlið og friðað húsið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.