Húsasmiðjan lokar á Reyðarfirði

Húsasmiðjan hefur ákveðið að loka verslun sinni á Reyðarfirði um næstu áramót. Forstjóri fyrirtækisins segir litlar einingar á borð við verslunina á Reyðarfirði eiga erfitt uppdráttar í harðri samkeppni. Til stendur að efla verslunina á Egilsstöðum.

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst var starfsmönnum tilkynnt um ráðstöfunina í gær. Þar hafa starfað þrír starfsmenn og staðfesti Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, að einn þeirra hefði fengið uppsagnarbréf.

Hins vegar sé ákveðið að Guðmundur Frímann Þorsteinsson, rekstrarstjóri, verði áfram hjá fyrirtækinu og sinna sölustarfi í Fjarðabyggð auk þess að vinna í versluninni á Egilsstöðum.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að samkeppni á byggingavörumarkaði og í smásöluverslun sé hörð og reynslan hafi sýnt að litlar einingar á borð við verslunina á Reyðarfirði eigi erfitt uppdráttar í slíku umhverfi.

Staðan sé þessi þrátt fyrir töluverða fjölgun í afgreiðslum hjá versluninni í ár, eftir að BYKO ákvað að loka verslun sinni á Reyðarfirði fyrir ári. „Grundvöllur fyrir slíkri byggingarvöruverslun með það mikla úrval vara sem Húsasmiðjan býður upp á er ekki til staðar,“ segir þar.

Í tilkynningunni er talað um að verslunin á Reyðarfirði verði sameinuð verslun Húsasmiðjunnar á Egilsstöðum. „Með sameiningunni teljum við að Húsasmiðjan geti betur þjónað kröfum um mikið vöruúrval og hagstætt vöruverð á Austurlandi. Húsasmiðjan og Blómaval á Egilsstöðum er stór og glæsileg verslun sem jafnframt endurspeglar mun betur það vöruúrval sem Húsasmiðjan býður á landsvísu.“

Í samtali við Austurfrétt sagði Árni að vörunúmerum í ákveðnum vöruflokkum kynni að verða fjölgað í versluninni á Egilsstöðum á næstunni. Hann sagði viðskiptavinir gera kröfur um mikið úrval, til dæmis í timbri, sem erfitt sé að standa undir í litlum einingum.

Í lok tilkynningarinnar er þakkað fyrir viðskiptin í versluninni á Reyðarfirði sem opnuð var árið 2006 og því heitið að starfsfólk Húsasmiðjunnar muni áfram áfram leggja sig fram um að sinna þjónustu við Fjarðabyggð sem best bæði úr versluninni á Egilsstöðum eða í gegnum netverslun og vöruhús okkar í Reykjavík.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.