Humarinn skapar yfir 100 störf á Höfn í Hornafirði

humar_hofn_web.jpgHumarvertíðin hófst 10. apríl og er leyfilegt að veiða 2300 tonn en vertíðin stendur fram á haust. Kvóti Skinneyjar Þinganess á Höfn í Hornafirði er um 650 tonn og segir Ásgeir Gunnarsson útgerðarstjóri að veiðarnar hafi gengið vel til þessa.

 

„Tvö nýjustu skip fyrirtækisins, Skinney og Þórir eru á humarveiðum en þau eru sérstaklega hönnuð til slíkra veiða. Aflinn hefur verið ágætur að undanförnu en skipin hafa aðallega verið á Breiðamerkurdýpi og Skeiðarárdýpi og koma með allan humarinn heilan að landi. Spánverjar kaupa heila humarinn og verðið er mjög gott, þótt kreppan hafi stigið þar niður fæti. Íslenski humarinn er eftirsóttur vegna þess hversu stór hann er. Halarnir eru seldir til Kanada og hér innanlands.“

Ný flæðilína

„Það var kominn tími til að endurnýja tækjakostinn og flæðilína frá Marel varð fyrir valinu, sem hefur staðist okkar væntingar fullkomlega. Meðferð hráefnisins er mun betri, auk þess sem öll vinnuaðstaða starfsfólksins allt önnur og þægilegri en áður.“

Úr skóla í humarinn

„Hér er atvinnuleysi óþekkt meðal ungs fólks, því við þurfum að ráða til okkar um 70 manns í landvinnsluna vegna sumarleyfa. Framhaldsskólakrakkarnir koma beint í vinnu er skólum lýkur og 16 ára unglingar hefja störf 15. júní. Þannig að þessi vinnsla skiptir atvinnulífið á staðnum óskaplega miklu máli. Á skipunum eru samtals rúmlega 20 manns. Síðan skapast auðvitað fjölmörg önnur störf vegna humarveiða- og vinnslu hérna í sveitarfélaginu.“

Vertíðarstemming

„Það er alltaf líf í kringum humarinn. Þessi stemming sem skapast er líklega vegna þess að það þarf töluverðan fjölda fólks til að vinna hráefnið. Hér er unnið sex daga vikunnar og allir keppast við að láta hlutina ganga vel fyrir sig,“ segir Ásgeir Gunnarsson útgerðarstjóri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.