HSA sýknuð af launakröfu læknis

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) var á föstudag sýknuð af kröfum verktakalæknis hjá stofnunni um vangreidd laun. Landsréttur taldi læknirinn ekki hafa sýnt fram á að honum bæri að fá meira greitt en fólst í orðum samningsins og snéri þar með við dómi héraðsdóms.

Ágreiningurinn stóð um túlkun ákvæðis í nýjum samningi sem gerður var við lækninn vorið 2017. Samkvæmt honum átti hann að fá samtals 135.000 krónur í laun og öll önnur gjöld fyrir hvern unninn sólarhring hjá stofnuninni. Þar fyrir utan voru ákvæði um akstur og að HSA útvegaði lækninum húsnæði.

Samningurinn var áþekkur eldri samningi, en eftir honum hafði læknirinn fengið greidda 30,4 daga í mánuði, fyrir utan skilgreinda frídaga eða orlofsdaga þar sem læknirinn var ekki á vakt.

Í nýja samningnum var einnig ákvæði um að læknirinn hefði heimild til að vinna einn dag á sérfræðistofu sinni í Reykjavík á móti hverjum þremur vikum unnum fyrir HSA.

Deilan stóð um að læknirinn taldi sig eiga að fá 135.000 á dag og 30 daga í mánuði, en eftir undirritun nýja samningsins taldi HSA aðeins þá daga sem læknirinn var sannarlega á vakt fyrir stofnunina.

Læknirinn gaf út reikning upp á 4,76 milljónir en af þeim greiddi HSA aðeins 3,54 milljónir. Fljótlega eftir að deilan kom upp rifti læknirinn samningunum, hætti störfum fyrir HSA og stefndi stofnuninni fyrir vangoldin laun.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi HSA til að greiða lækninum 4,8 milljónir í vangoldin laun, auk rúmrar milljónar í málskostnað.

Landsréttur taldi læknirinn aldrei hafa sannað að að hann ætti skilið að fá 135 þúsund krónur á hvern sólarhring, aðeins 135 þúsund á hvern unnin sólarhring eins og kæmi fram í samningnum. Hann hefði undirritað samninginn án fyrirvara og hann hefði ekki sannað að honum væri að fá meira en skýrt orðalag samningsins gæfi til kynna.

HSA var því talin sýkn af stefnu læknisins. Málskostnaður á báðum dómsstigum var látinn niður falla.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.