HSA: Dauðadómur að hjakka áfram í sama fari sérfræðiþjónustunnar

Hluti þess fjár sem Heilbrigðisstofnun Austurlands er ætlað til að sinna grunnþjónustu er nýttur til að kaupa þjónustu sérfræðinga. Stjórnendur stofnunarinnar segja núverandi kerfi sérfræðilækna ekki geta gengið lengur. Ekki gangi að sérfræðilæknar séu eingöngu aðgengilegir í Reykjavík.


„Sérfræðiþjónustan eru forréttindi höfuðborgarsvæðisins. Að hjakka áfram í því fari sem hún er í er dauðadómur,“ sagði Pétur Heimsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA á íbúafundi um heilbrigðismál í Neskaupstað á þriðjudagskvöld.

Landlæknir hefur sagt að uppbygging sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni eigi að vera forgangsmál í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Hann gagnrýndi að sérgreinalæknar haldi eigin stofur úti í bæ á sama tíma og þeir séu í hlutastarfi á Landsspítalanum.

Ekki var annað að heyra en stjórnendur HSA væru honum sammála. „Þetta er hluti vandans. Við þurfum að skapa skilning á því í íslensku samfélagi að það þurfi að sérfræðivæða aðra hluta landsins“ sagði Pétur og bætti því við að hann fagnaði því að hafa í embætti landlæknis mann sem talaði skýrt um þessa hluti.

Sameiginlegir sjóðir í sérfræðinga

Bæði Pétur og forstjórinn, Kristín Björg Albertsdóttir, fóru yfir að misjafnlega hefði gengið að halda í sérfræðinga og þeir hefðu reynst stofnuninni dýrir. Hún kom inn á kostnaðinn þegar hún var spurð að því hvort fé ætlað Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað væri nýtt til annars reksturs HSA.

„Fjárframlögum HSA er skipt fyrirfram á fjárlögum, það er ákveðið til sjúkrasviðs, til hjúkrunar og til heilsugæslu og er miðað við stöðugildi, þjónustu og fleira.

Sjúkrahúsið tekur stóran hluta af fjármagni sem ætti að vera á öðrum stöðum, svo sem afgang af heilsugæslu. Sérfræðiþjónustan er veitt beint á kostnað HSA og skýrir að hluta til halla stofnunarinnar,“ sagði Kristín.

Hún skýrði frá því að samningi við augnlækni hefði verið sagt upp þar sem einingaþaki hans hefði verið náð og ekki náðst nýtt samkomulag. Eins hefði verið sagt upp samningi við geðlækni sem „var stofnuninni alltof dýr“. Reynt hefði verið að semja við hann á sömu forsendum og við aðra sérgreinalækna HSA en samningar ekki náðst.

Ekki rétt að nota takmarkað fé í takmarkaðar lausnir

Pétur sagði mikið óhagræði í að þurfa að sækja alla sérfræðiþjónustu suður til Reykjavíkur. „Okkur er skammtað fé til að sinna grunnþjónustu og það hjálpar engum til lengdar að við notum umtalsverðan hluta þess fjár til að kaupa sérfræðiþjónustu.

Það er eðlilegt að það kosti að fá sérfræðinga en fé HSA er alls ekki hugsað til þess. Við verðum að afla skilnings á því þannig að við, eða aðrir, fáum fjármagn til að kaupa þessa þjónustu. Það er ekki leiðin að nota hluta af takmörkuðu fé HSA til að kaupa inn það sem verður aldrei nema takmörkuð lausn.“

Sérfræðingar skikkaðir út á land?

Jón Sen, nýr forstöðulæknir Fjórðungssjúkrahússins, sagði að stöðugleiki þyrfti að ríkja í þjónustu sérgreinalækna. „Það er óþolandi að fólk með langvinna sjúkdóma í eftirliti þurfi alltaf að fá nýjan lækni.“

Kristín Björg lýsti þeirri skoðun sinni að sérfræðingar yrðu skikkaðir til að fara út á land. „Það er út í hött að sérfræðingar geti sótt um einingar til ríkisins en sinni öllu sínu í 101. Það má ekki vera sjálfval að þú hafir stofuna í 101 og allir verði að sækja þjónustuna þangað. Það er nær að einingunum sé dreift í landshlutana eftir íbúafjölda þannig að sérfræðingarnir verði að koma og veita þjónustuna þar til að nýta einingarnar.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.