„Hjarta skógræktar á Íslandi er á Austurlandi“

Matvælaráðherra tilkynnti í síðustu viku að forathugun væri hafin á sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Ráðherra telur samlegð í þekkingu og starfsemi milli stofnana tveggja.

„Með forathugun er átt við úttekt þar sem grundvöllur fyrir sameiningu er metinn. Við gefum okkur hálft ár í það, síðan tökum við ákvörðun um næstu skref,“ segir Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra. Hún er á ferð um Austurland og fundaði fyrir hádegi með Þresti Eysteinssyni, skógræktarstjóra.

„Ég hef rætt þessa hugmynd við bæði hann og Árna Snorrason landgræðslustjóra síðan ég tók við embætti í vetur. Við gerum okkur öll grein fyrir að ákveðin álitamál kunna að koma upp og þau þarf að fara í gegnum. Fyrstu viðbrögð eru góð og allir sammála um augljósan framkvæmdalegan ávinning.“

Ekki í fyrsta sinn sem hugmyndin kemur upp

Vika er síðan tilkynnt var að Svandís hefði látið hefja forathugun á sameiningu „tveggja lykilstofnana í loftslagsvernd.“ Þar er einnig talað um að báðar stofnanir hafi langa og góða reynslu af því að vinna með grasrótarsamtökum, almenningi og landeigendum auk þess sem sérfræðingar beggja þekki vel til og rannsaki vistkerfi, gróðurfar og loftslag.

„Þetta snýst um verkefni stofnana sem eru skyld og skarast enn meira eftir því sem áhersla á loftslagsmál eykst, það er verkefni um bindingu kolefnis. Við teljum það yrði samlegð í bæði þekkingu og framkvæmd. Stofnanirnar eru þegar í miklu samstarfi og með starfsstöðvar víða um land.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi hugmynd kemur upp. Ég þekki stofnanirnar báðar vel frá fyrri tíð þegar ég var í umhverfisráðuneytinu og fannst full ástæða til að skoða hugmyndina. Ég hef heyrt á forstöðumönnum beggja að þeir eru ekki fráhverfir því að fara í forathugunina.“

Ef ástæða þykir til að halda áfram eftir forathugunina þarf að fara með málið fyrir Alþingi með frumvarpi. „Það er nýbúið að uppfæra hlutverk stofnananna, lagaumhverfinu var breytt á síðasta kjörtímabili. Ég sé enga áherslu til að breyta þeim áherslum eða hlutverkum sem þar koma fram, heldur snérist þetta um að sameina stofnanirnar og verkefni þeirra formlega. Síðan eru það starfsstöðvarnar, hreyfanleiki verkefna og annað slíkt sem þarf að ganga upp.“

Má ekki stranda á höfuðstöðvunum

Höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins voru fluttar austur í Egilsstaði um áramótin 1989/90. Þar með varð hún fyrsta ríkisstofnunin til að verða flutt með þessum hætti. „Spurningin um höfuðstöðvarnar kemur oft fyrst í umræðunni en ætti að koma síðast. Það er augljóst að hjarta skógræktar á Íslandi er á Austurlandi en hjarta landgræðslunnar á Suðurlandi. Þannig verður það, óháð hver verður forstjóri eða hvar hann verður. Mögulega verður hann hreyfanlegur. Við eigum ekki að láta þetta stoppa okkur frá því að fara í saumana á þessu.“

Aðspurð um stuðning við áformin innan ríkisstjórnarflokka, meðal annars í ljósi þess að sameiningin var ekki inni í stjórnarsáttmálanum, svarar Svandís: „Næstu skref eftir að búið er að þreifa á stofnunum er að gera ríkisstjórninni grein fyrir málinu með formlegum hætti.

Bæði þessi ríkisstjórn og sú síðasta hafa verið opnar fyrir sveigjanleika í stofnanakerfi ríkisins og ekki síður störf án staðsetningar út um landið. Að vissu leyti er matvælaráðuneytið landsbyggðarráðuneyti, fimm af sex stofnunum þess eru með höfuðstöðvar annars staðar en í Reykjavík. Við sjáum mikla möguleika í að vinna meira saman þvert á stofnanir.“

Hittir fólk í matvælaframleiðslu

Svandís er þessa vikuna á hringferðum landið til að hitta fólk sem tengist hennar ráðuneyti, sem og félaga í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði sem undirbúa sveitarstjórnarkosningarnar á laugardag.

„Ég tók við ráðuneytinu seint á síðasta ári og síðan hef ég stefnt á að kynna mér ýmislegt sem tengist matvælaframleiðslu. Hér eystra er ég búin að tala við fiskeldisfólk og kúabændur. Á leiðinni kom ég við í Gunnarsholti og hitti landgræðslustjóra. Síðan tek ég þátt í fundum með okkar fólk í VG.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.