Hinn nýi Börkur er kominn til Skagen

Börkur, hinn nýi togari Síldarvinnslunnar (SVN) er komin til Skagen í Danmörku. Þar verður smíði togarans lokið. Börkur var dreginn til Skagen frá Gdynja í Póllandi.

Fjallað er um málið á vefsíðu SVN. Þar segir að það gekk vel að draga skipið enda blíðuveður allan tímann. Koma skipsins til Skagen vakti töluverða athygli og safnaðist fólk saman til að berja hið glæsilega skip augum.

Þeir Karl Jóhann Birgisson og Jóhann Pétur Gíslason vélstjóri eru í Skagen og fylgjast vandlega með öllum framkvæmdum í skipinu.

„Þegar Börkur kom í gær var hann dreginn að hafnarkanti og bíður þar. Ráðgert er að systurskipið Vilhelm Þorsteinsson EA fari í dokk í dag og þá verður Börkur færður að hafnarkanti við skipasmíðastöðina,“ segir Karl Jóhann í samtali við vefsíðuna.

„Þegar framkvæmdir um borð í skipinu verða komnar á fullt má gera ráð fyrir að 170-180 manns verði þar að störfum. Hér í skipasmíðastöð Karstensens er gott skipulag á öllu. Samskipti eru öll til fyrirmyndar og allir virðast fullkomlega kunna sitt fag.“

Fram kemur að flestir starfsmennirnir eru danskir en síðan eru þarna einnig iðnaðarmenn af öðru þjóðerni, flestir pólskir.

„Skipasmíðastöðin gefur upp að vinnan um borð í skipinu í Skagen taki fimm til sex mánuði og því megi gera ráð fyrir að henni ljúki í aprílmánuði næstkomandi. Það fer vel um okkur Jóhann Pétur hér og tíminn er fljótur að líða enda erum við að fást við virkilega spennandi verkefni,“ segir Karl Jóhann.

Mynd: Stefán P. Hauksson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.