Hilda Jana: Viljum vinna með heimafólki að nýjum þáttum

Hilda Jana Gísladóttir, sjónvarpsstjóri N4, segir unnið að því að tryggja að áfram verði þáttur með austfirsku efni á sjónvarpsstöðinni. Síðasti þátturinn af Glettum að austan í stjórn Gísla Sigurgeirssonar fór í loftið í gærkvöldi.


„Við leggjum áherslu á að ný þáttasería að austan líti dagsins ljós fljótlega og höfum við nú þegar hafið samstarf við heimafólk að framleiðslunni. Við erum spennt fyrir því samstarfi og ef allt gengur upp, þá mun nýr þáttur, með nýjum þáttastjórnendum frá Austurlandi líta dagsins ljós í febrúarmánuði,“ segir Hilda Jana.

Hún segist finna mikinn áhuga meðal Austfirðinga til að viðhalda reglulegum þáttum með efni af svæðinu.

„Við vinnum nú hörðum höndum að því að tryggja það að austfirskur þáttur haldi áfram á N4, enda erum við gríðarlega stolt af því að sýna vikulegan þátt frá svæðinu á N4 og teljum að það skipti miklu máli. Það gaf okkur þar að auki byr undir báða vængi að finna þann mikla meðbyr, jákvæðni og vilja Austfirðinga til þess að halda áfram okkar samstarfi.

Við viljum þar að auki þakka Gísla Sigurgeirssyni einstaklega vel fyrir hans störf á svæðinu, en hans vinna og frumkvöðlastarf í sjónvarpsþáttagerð á svæðinu er ómetanlegt.“

N4 hefur verið í töluverði sókn að undanförnu en í vikunni var tilkynnt um að stöðin hefði fengið styrkt til að leiða norrænt samstarfsverkefni í gerð þátta sem sýni lífið á Norðurslóðum, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi og Norður-Noregi.

Þá var dreifing N4 efld fyrir jól þannig að nú næst það í gegnum UHF sendingar. Til að ná þeim þarf hins vegar DVB-T2 móttakara frá Vodafone. Hann er hægt að fá leigðan hjá Myndsmiðjunni á Egilsstöðum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.