Héraðslistinn undirbýr framboð

Tillaga stjórnar Héraðslistans, samtaka félagshyggjufólks á Fljótsdalshéraði, um að listinn biði ekki fram í sveitarstjórnarkosningunum í vor var felld á aðalfundi á laugardag. Þess í stað var skipuð uppstillingarnefnd til að raða á listann.

Stjórn listans sendi í byrjun mánaðarins frá sér yfirlýsingu um að hún legði til að ekki yrði boðið fram þar sem ekki gengi að manna efstu sæti listans.

Í tilkynningu sem send var út eftir fundinn á laugardag segir að í kjölfarið hafi fjölmargir haft samband og lýst áhyggjum af þróun mála. Á aðalfundinum hafi svo komið fram ríkur vilji til að vinna að því að manna lista fyrir kosningarnar í voru.

„Það er auðvitað mjög ánægjulegt að finna fyrir þessum áhuga og stuðningi og okkur þykir það einfaldlega vera samfélagslega skyldu okkar að láta á þetta reyna,“ segir Sigrún Blöndal, fráfarandi oddviti listans.

„Héraðslistinn fagnar 20 ára afmæli sínu í ár og það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að stefnumál hans og áherslur hafa átt hljómgrunn meðal íbúa Fljótsdalshéraðs. Það hefur náðst góður árangur á mörgum sviðum á liðnum árum og auðvitað myndum við vilja leggja okkar að liði til að halda áfram að byggja hér upp kraftmikið og gott samfélag.“

Héraðslistinn fékk tvo bæjarfulltrúa kjörna í kosningunum fyrir fjórum árum og myndar meirihluta ásamt Á-lista og Sjálfstæðisflokki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar