„Hér á Vopnafirði standa allir saman“

Björgunarsveitin Vopni á Vopnafirði heldur úti öflugu ungliðastarfi en rúmlega 20 ungmenni á aldrinum 13 til 18 ára starfa með félaginu.


Jón Sigurðarson er formaður Björgunarsveitarinnar Vopna og hann hefur einnig haldið utan um ungmennastarf hennar í tíu ár, en deildin er fyrir þá sem komnir eru í 8. bekk grunnskóla og þar til þeir ná 18 ára aldri.

„Í dag eru um 20 ungmenni starfandi með deildinni en mætingin fer aðeins eftir stærð þeirra árganga sem eru á staðnum hverju sinni. Við hittumst einu sinni í viku og gerum eitthvað skemmtilegt saman. Okkar helstu verkefni eru útivist þar sem þau læra að búa sig, undirbúa ferðir og rata, en í raun förum við yfir allt sem þarf að vita til þess að takast á við náttúru landsins.

Jón telur starfið gefa ungmennunum mikið á allan hátt. „Ég er þess viss um að þau öðlist aukið sjálfstraust við að fá að reyna hluti sem þau myndu annars ekki gera við öruggar aðstæður. Einnig trúi ég því að þau verði færari í samskiptum og læri að treysta hvert öðru eftir að hafa unnið svo mikið saman,“ segir Jón en deildin hittist vikulega, alltaf á miðvikudögum.

Jón segir að mikil samstaða sé um það á Vopnafirði að styðja vel við yngri kynslóðina. „Það er mjög mikilvægt að við bjóðum upp á öflugt ungmennastarf því það skilar sér til björgunarsveitarinnar og samfélagsins alls. Hér á Vopnafirði standa allir saman – Ungmennafélagið Einherji, skólinn, kirkjan og Vopni við að halda þétt utan um unga fólkið okkar.“

„Hópurinn vinnur mikið saman“
Mikael Viðar Elmarsson er í 10. bekk í Grunnskóla Vopnafjarðar, en hann hefur starfað með ungmennadeild Vopna síðastliðin tvö ár.
„Ég skráði mig í sveitina til gamans, það er alltaf gaman að upplifa eitthvað nýtt. Við erum að gera allt mögulegt, við til dæmis lærum að gera hnúta og þekkja áttavita. Núna erum við á leiðinni upp að Arnarvatni þar sem við gistum, grillum og förum í leiki með GPS-tæki. Hópurinn vinnur mikið saman og það er mjög lærdómsríkt,“ segir Mikael Viðar.

Hefur starfið í ungmennadeildinni haft hvetjandi áhrif á hann til þess að gerast meðlimur í Björgunarsveitinni Vopna þegar hann hefur aldur til þess? „Já, alveg klárlega, ef ég fer í framhaldsskóla hér á Vopnafirði. Afi minn var alltaf í björgunarsveitinni þannig að ég þekki þetta.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.