„Hélt ég væri búin að gefa það mikið að ekki þyrfti að rýja mig lífeyrinum“

Trúnaðarmaður starfsmanna hjá Vopnafjarðarhreppi hvetur starfsmenn til að fjölmenna á fund hreppsnefndar í dag til að láta hug sinn í ljósi þegar tekið verður fyrir tekið fyrir uppgjör hreppsins við lífeyrissjóðinn Stapa vegna vangoldinna iðgjalda á árunum 2005-2016. Trúnaðarmaðurinn segir ekki ganga að fólkið á lægstu laununum hjá borgi fyrir rangar ákvarðanir stjórnenda sveitarfélagsins.

Haustið 2016 kom í ljós á tímabilinu hafði sveitarfélagið greitt of lágt iðgjald til starfsmanna sinna. Í kjölfarið gerði lífeyrissjóður kröfu á hreppinn um greiðslu, höfuðstól með meðalávöxtun tímabilsins upp á 72 milljónir króna.

Samkvæmt útreikningum hreppsins myndi uppgjörið kosta alls um 100 milljónir, með fjármagnskostnaði. Á hreppsnefndarfundi í júní samþykkti meirihluti hreppsnefndar að borga tæpar 44,2 milljónir króna, sem er höfuðstóll tímabilsins alls auk vaxta á árunum 2013-16 sem séu ófyrndir. Í bókun meirihlutans er meðal annars bent á að lífeyrissjóðurinn hafi árum saman tekið á móti of lágum greiðslum án athugasemda.

Þá þurfi fulltrúar í hreppsnefnd að taka tillit til fleiri en bara starfsmanna og tryggja að önnur verkefni gangi sinn gang. Þegar sé ljóst að högg komi á fjárhaginn vegna loðnubrests, 130 milljóna afskrifta hjá hjúkrunarheimilinu Sundabúð og ofáætlana á rekstarafkomu í fyrra upp á 110 milljónir.

Samkvæmt dagskrá hreppsnefndarfundar í dag verður tekin fyrir tillaga um hvernig sveitarfélagið hyggst haga greiðslum sínum á 44 milljónunum til Stapa. Síðan í júní hafa staðið yfir deilur um þann þriðjung kröfunnar sem enn út af stendur, tæpar 30 milljónir króna.

Tilboð hreppsins áfall

Það var Sigríður Dóra Sverrisdóttir, trúnaðarmaður á leikskólanum Brekkubæ, sem varð vör við villuna haustið 2016 og hefur síðan barist fyrir því að sveitarfélagið greiði kröfur Stapa að fullu. Hún hefur hefur hvatt starfsmenn og aðra Vopnfirðinga til að mæta á hreppsnefndarfundinn til að setja þrýsting á hreppsnefndina um að greiða kröfuna til fulls. „Ég býst ekki við neinu en ég vona að þau snúi villu síns vegar. Ég get þá huggað mig við að það eru bara rúm tvö ár til næstu kosninga. Ég vona að Vopnfirðingar muni eftir þessu þá,“ segir hún.

Hún segir að frá haustinu 2016 hafi fengist nein viðbrögð frá sveitarfélaginu fyrr en í byrjun árs 2018 þegar þáverandi sveitarstjóri fundaði með starfsmönnum. Þar hafi því verið heitið að skuldin yrði gerð upp að fullu en tíma tæki að reikna út nákvæmlega hvernig. Næst hafi frést af málinu í júní og niðurstaðan þá verið allt önnur en heitið hafði verið.

Sigríður Dóra segir niðurstöðuna hafa verið „mikið áfall“ en einna mest gremst henni rök meirihlutans, eins og þau að lífeyrissjóðurinn og félagar í honum hafi sýnt af sér tómlæti. „Launaseðlarnir okkar sýndu okkar framlag í krónum en enga prósentutölu. Ég er svo heppinn að eiga launaseðla langt aftur í tímann og tók langan tíma í að fara yfir þetta. Rökin byggja á að við lúslesum kjarasamningana en við þurfum að geta treyst á að rétt sé reiknað hjá hreppnum. Þess vegna spyr ég líka um ábyrgð endurskoðenda í málinu,“ segir hún.

Snýst um meira en 2300 krónur á mánuði

Í rökstuðningi meirihlutans frá í júní er bent á að meðalskerðing á lífeyrisréttindum hvers starfsmanns séu 2.300 krónur á hvern einstakling sem í hlut á og hefur ekki hafið töku lífeyris. Sigríður Dóra segir þessa tölu slá ryki í augum fólks.

Alls eigi um 400 manns kröfu á sveitarfélagið. Stór hluti þess sé fólk sem starfað hafi í takmarkaðan tíma hjá sveitarfélaginu. Á móti séu 70-100 manns sem starfað hafi hjá hreppnum jafnvel áratugum saman og á þá hafi þetta mikil áhrif. „Þetta er fólkið á lægstu laununum, ófaglærða fólkið, til dæmis skólaleiðarnir, fólkið í heimaþjónustunni. Í þessum hópi eru konur sem unnið hafa hjá sveitarfélaginu í rúm 20 ár og hafa misst mennina sína. Þetta hefur áhrif á makalífeyrinn.

Ég er búin að starfa hjá sveitarfélaginu í 36 ár og þetta er þakklætið. Ég hélt ég væri búin að gefa það mikið að ekki þyrfti að rýja mig lífeyrinum,“ segir Sigríður Dóra sem hefur sagt upp störfum á leikskólanum vegna málsins.

Ekki almennra starfsmanna að taka ábyrgð á fjármálum sveitarfélagsins

Hún er heldur ekki hrifinn af rökstuðningi meirihlutans um að ekki sé hægt að ganga að fullu að kröfu Stapa því standa þurfi straum af kostnaði við önnur verkefni og áföll í rekstri hreppsins. „Það er óréttlátt að við borgum framúrkeyrslu og skuldir sveitarfélagsins sem eru tilkomnar af vitlausum ákvörðunum stjórnenda. Það á að ná þessari framúrkeyrslu af okkur sem höfum starfað fyrir sveitarfélagið áratugum saman. Er réttlætanlegt að peningarnir hafi verið teknir að láni frá okkur í átta ár og nýttir? Við vorum ekki beðin um leyfi né fengið vexti. Svo á að reyna að senda reikninginn á almannatrygginakerfið, ríkið. Það erum líka við sem borgum það. Á sama tíma hefur sveitarfélagið fært inn varúðarfærslur fyrir aðra starfsmenn sem eru í lífeyrissjóðnum Brú.“

Hún er einnig óánægð með að stjórnendur sveitarfélagsins hafi ekki rætt málið við starfsfólkið eftir að ákvörðunin var tekin í júní. Hún hafi þrýst á hreppsnefndarfólk um fund síðan en fengið fá, ef nokkur, svör. „Ég hef þurft að svara fyrir þetta í þrjú ár því fólk hefur leitað til mín eftir skýringum. Ég hef lagt mikla vinnu í að setja mig inn í lífeyrissjóðsmál og þetta hefur reynt mjög á mig. Við erum reið og förum á hreppsnefndarfundinn í dag því við höfum ekki fengið fund.“

Málið var á dagskrá hreppsráðs á mánudag þar sem bréfi frá lögmanni Stapa var vísað til hreppsnefndar. Samkvæmt bókun ráðsins á að tilkynna niðurstöðu málsins á opnum fundi að lokinni fullnaðarafgreiðslu þess.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.