Helmingur tilnefninga að austan

Þrjú af þeim sex verkefnum sem eiga möguleika á að hljóta Eyrarrósina í ár eru af Austurlandi, en þau eru Eistnaflug í Neskaupstað, List í ljósi á Seyðisfirði og Rúllandi snjóbolti á Djúpavogi.



Eyrarrósarlistinn 2017 var birtur í gær, en Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins og miðar að því að hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Að verðlaununum standa í sameiningu Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík.

Alls bárust 37 umsóknir í ár, en auk verkefnanna að austan eru það Alþýðuhúsið á Siglufirði, Nes - listamiðstöð á Skagaströnd og Vesturfarasetrið á Hofsósi sem munu berjast um Eyrarrósina, en henni fylgja tvær milljónir í verðlaunafé, auk þess sem tvö verkefnanna hljóta 500 þúsund króna verðlaun.


Menningarlíf í miklum blóma

„Menningarlíf á Austfjörðum stendur greinilega í miklum blóma og býður upp á mikla fjölbreytni eins og þessi þrjú verkefni endurspegla; þungarokkshátíð, alþjóðleg myndlistarsýning og ljósahátið. Það er líka ánægjulegt að á Austurlandi eru töluvert mörg rótgróin og sterk menningarverkefni en það er líka mikil nýsköpun í gangi,“ sagði Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, í samtali við Austurfrétt.

„Eyrarrósin er orðin að föstum lið í íslensku menningarlífi. Það er gaman að segja frá því að Listahátíð, Byggðastofnun og Flugfélag Íslands eru nú að endurnýja samninga sína til ársins 2020. Við sem að Eyrarrósinni stöndum vonumst auðvitað til að verðlaunin skipti miklu máli fyrir menningarlíf á landsbyggðinni. Ég tel reyndar að svo sé og að fjöldi umsókna á hverju ári beri því gott vitni. Verkefnin sem hafa áður hlotið Eyrarrósina í þau tólf ár sem hún hefur verið veitt standa öll enn styrkum fótum, sem er sérstaklega ánægjulegt.“

Vigdís segir að umsóknir um Eyrarrósina fari sífellt fjölgandi. „Eitt árið voru þær reyndar 47, en það var metár. Það er greinilegur munur á fjölda umsókna eftir landsvæðum í ár, sem er erfitt að segja hvernig komi til. Ég tel frekar að þar hafi upplýsingaflæði og eftirfylgni í heimabyggð meira að segja heldur en að það sé alltaf svo mikill munur á fjölda eða gæðum menningarverkefna í landshlutunum.“


Eyrarrósin afhent á Hjalteyri um miðjan febrúar

Eyrarrósin verður afhent við hátíðlega athöfn þann 16. febrúar næstkomandi í Verksmiðjunni að Hjalteyri, sem er handhafi Eyrarrósarinnar frá síðasta ári. Frú Eliza Reid, nýr verndari Eyrarrósarinnar mun afhenda verðlaunin.


Hér má sjá umsögn Byggðastofnunar á austfirsku verkefnunum þremur;

List í ljósi, Seyðisfirði

List í ljósi er í vetur haldin á Seyðisfirði í annað sinn, en henni er ætlað að verða að árlegum viðburði. Rík áhersla er lögð á samfélagsleg áhrif hátíðarinnar sem fer fram utandyra. Geta allir, ungir sem aldnir, tekið þátt í hátíðinni með einum eða öðrum hætti. Á meðan á hátíðinni stendur er Seyðisfjarðarkaupstað umbreytt með ljósadýrð og spennandi listaverkum. Áhorfendur, sem um leið eru þáttakendur, upplifa á magnaðan hátt ýmis listaverk, allt frá innsetningum og videóverkum til stærri ljósaskúlptúra. Innlendir og erlendir listamenn taka þátt í hátíðinni sem bókstaflega lýsir upp Seyðisfjörð. Markmið hátíðarinnar er að styðja við menningarlíf Austurlands á lágönn og fagna komu sólar eftir þrjá langa og sólarlausa mánuði.

https://www.listiljosi.com


Eistnaflug, Neskaupstað

Eistnaflug er rótgróin tónlistarhátíð sem haldin er á Neskaupsstað aðra helgina í júlí ár hvert. Eistnaflug er eina tónlistahátíðin hér á landi þar sem höfuðáhersla er lögð á þungarokk og aðrar jaðartónlistarstefnur. Margar af þekktustu þungarokksveitum heims hafa komið fram á hátíðinni en hátíðin styður líka við bakið á ungum og upprennandi hljómsveitum og hefur rutt veginn fyrir íslenskar sveitir á erlendum útgáfu – og tónleikamarkaði. Skipuleggjendur eru stoltir af góðu orðspori Eistnaflugs sem „rokkhátíðar sem fer fram í bróðerni og samstöðu“. Um 50 rokksveitir munu koma fram á Eistnaflugi 2017.

http://www.eistnaflug.is

Eistnaflug1

 

Rúllandi snjóbolti, Djúpavogi

Í gömlu Bræðslunni á Djúpavogi hefur alþjóðlega samtímalistasýningin Rúllandi snjóbolti verið haldin árlega frá árinu 2014 og styrkir stöðu sína með hverju ári. Um er að ræða eftirtektarvert og afar metnaðarfullt samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og CEAC (Chinese European Art Center). Á sýningunni síðastliðið sumar áttu 32 íslenskir og erlendir listamenn verk á sýningunni og þannig er um að ræða eina stærstu samtímalistasýningu ársins hérlendis. Aðgangur á sýninguna var ókeypis og nutu bæði Austfirðingar og ferðamenn góðs af.

https://www.facebook.com/rullandisnjobolti7

Rúllandi snjóbolti

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.