Helgin: Myndin um lundahótelið frumsýnd

Stuttmynd um lundahótelið, sem starfrækt var á Borgarfirði eystra í sumar, verður frumsýnd þar annað kvöld. Ýmislegt verður um að vera í tengslum við austfirsku barnamenningarhátíðina BRAS um helgina.

Þær Elín Elísabet Einarsdóttir og Rán Flygenring settu upp lundahótel við höfnina á Borgarfirði í sumar. Hótelið var listrænn gjörningur og nú hafa þær sett saman stuttmynd um hótelið. Hún verður frumsýnd í Fjarðaborg á Borgarfirði klukkan 20:00 annað kvöld.

Elín og Rán verða síðan á ferðinni um Austurland um helgina með námskeið í fuglateikningum fyrir alla fjölskylduna. Smiðjurnar eru hluti af barnamenningarhátíðinni BRAS og eru ætlaðar öllum aldurshópum.

Þær verða í Fjarðarborg á Borgarfirði klukkan 17:00 í dag og í Þingmúla í Valaskjálf á Egilsstöðum milli 13:00 og 14:30 á morgun.

Í Neskaupstað verður klippimyndasmiðja í Þórsmörk á vegum BRAS. Marc Alexander, sem opnaði þar listsýningu um síðustu helgi, leiðbeinir þar börnum og fullorðnum um hvernig gera megi klippimyndir frá klukkan 13 til 15.

Höttur leikur sinn þriðja leik í fyrstu deild karla í körfuknattleik í kvöld þegar liðið tekur á móti Álftanesi. Leikurinn hefst klukkan 19:15.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.