Heldur fleiri sem kunna vel við Múlaþingsnafnið

Útlit er fyrir að nafnið Múlaþing verði staðfest sem nafn á sameinað sveitarfélag Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar á fyrsta fundi sveitarstjórnar í dag. Skiptar skoðanir eru um nafnið samkvæmt skoðanakönnun Austurfréttar/Austurgluggans.

Nafnið Múlaþing varð hlutskarpast í skoðanakönnun meðal íbúa í hinu nýja sveitarfélagi, sem gerð var samhliða forsetakosningunum í lok júní. Alla tíð hefur þó verið ljóst að skiptar skoðanir væru um nafngiftina, eins og kom á daginn í skoðanakönnun Austurfréttar/Austurgluggans sem gerð var í lok ágúst.

Þar voru þátttakendur aðeins spurðir út í hve vel þeim líkaði nafnið Múlaþing á fimm stiga kvarða frá mjög vel niður í mjög illa. Heldur fleirum líkaði vel við nafnið.

45,7% sögðu að þeim líkaði nafnið vel eða mjög vel, þar af 28,5% mjög vel. 36,1% líkaði nafnið illa eða mjög illa, þar af féllu 20,4% í síðarnefnda flokkinn. 18,2% virtust hlutlaus gagnvart nafninu.

Framsóknarfólk hrifnast af Múlaþingi

Nokkur munur var á fylgi við nafnið eftir því hvað fólk hugsaði sér á þeim tíma að kjósa í sveitarstjórnarkosningunum um miðjan september. Múlaþingsnafnið var langvinsælast hjá þeim sem studdu Framsóknarflokkinn, yfir 70% þeirra líkaði nafnið vel, þar af 52% mjög vel. Næst vinsælast var vinstri grænum, 56% þeirra kunnu mjög vel eða vel við nafnið en 27% illa eða mjög illa.

Álit á nafninu meðal Sjálfstæðisfólks, þar sögðust 43% kunna vel við nafnið en 33% illa. Hjá væntanlegum kjósendum Austurlistans var hlutfallið jafnt, 39%. Fylgjendur Miðflokks virtist ekki sáttir við nafnið, 46% líkaði það illa en 39% vel. Óákveðnum var þó verst við það, 57% þeirra sögðu þeim líkaði illa við nafnið en 30% vel.

Þeim elstu og yngstu líkar nafnið best

Múlaþingsnafnið var vinsælast meðal yngstu og elstu aldurshópanna. Meðal 18-24 sögðu 60% að þeim líkaði nafnið mjög vel en 20% illa. Meðal 65 ára og eldri urðu til afar andstæðar fylkingar. 54% sögðust kunna vel við nafnið, þar af 49% mjög vel en 31% kunnu illa við það, þar af 23% mjög illa.

Svipaða skiptingu má finna í fleirum aldurshópum. Hjá 25-34 ára sögðust 36% ósátt við nafnið, þar af var 33% sem líkaði það mjög illa. 42% sögðust kunna vel við það. Það var sá aldurshópur sem verst kunni við nafnið. Í aldurshópnum 35-44 ára voru aðeins fleiri sem kunnu vel við nafnið, 38% á móti 36%. Munurinn var meiri meðal 45-54 ára þar sem 45% kunnu vel við nafnið á móti 38% og hjá 55-64 ára líkaði 48% við nafnið en 32% ekki.

Körlum virðist líka Múlaþing heldur betur en konum en munurinn er ekki mikill. 48% karla líkar vel við nafnið en 36% illa. 43% kvenna sögðust kunna vel við nafnið en 36% illa.

Seyðfirðingar efnis

Að endingu skoðaði Austurfrétt/Austurglugginn hug íbúa til nafnsins eftir því í hvaða sveitarfélagi þeir bjuggu. Múlþingsnafnið nýtur mestrar hylli á Fljótsdalshéraði og Borgarfirði. Á Héraði líkaði 51% nafnið vel en 34% illa. Á Borgarfirði sögðust 50% kunna vel við nafnið, þar af 33% mjög vel en 28% kunnu illa við nafnið, þar af aðeins 6% mjög illa.

Seyðfirðingum virðist hins vegar í nöp við nafnið. 49% svarenda þar líkaði Múlaþing illa. 25% kunnu vel við það, þar af 20% mjög vel. Á Djúpavogi kunnu 45% vel við nafnið en 32% illa við það, þar af 26% mjög illa.

Nafnið er á dagskrá fyrsta fundar nýrrar sveitarstjórnar sem verður haldinn á Egilsstöðum klukkan 14:00 í dag. Útlit er fyrir að Múlaþingsnafnið verði samþykkt miðað við orð Gauta Jóhannessonar, oddvita Sjálfstæðisflokks, þegar hann var spurður út í það þegar meirihlutasamstarf flokksins og Framsóknarflokks var kynnt fyrir viku.

„Ég held að það verði mjög erfitt að horfa framhjá þeim meirihluta sem lýsti sig Múlaþingsnafninu. Aukinheldur er erfitt að horfa framhjá samþykki Örnefnanefndar,“ sagði hann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.