Heiður Vigfúsdóttir lætur af störfum hjá Vök-Baths

Heiður Vigfúsdóttir hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri hjá Vök-Baths. Þetta hefur staðið til í nokkurn tíma eins og fram hefur komið í fréttum. Hinsvegar hefur ráðning eftirmanns hennar frestast vegna COVID. Vök-Baths er lokuð þessa stundina vegna hertra sóttvarnareglna.

„Það má að vissu leyti segja að þetta hafi verið dramatískt. Á mínum síðasta degi kom tilkynningin frá ríkisstjórninni og í kjölfarið var skellt í lás hjá okkur,“ segir Heiður Vigfúsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Vök Baths á Egilsstöðum. Hún lét af störfum nú um mánaðarmótin eftir fjögur ár í starfi hjá félaginu en staðurinn var opnaður sumarið 2019.

,,Ég þáði starfið fyrir tæpum fjórum árum og var ég þá búin að sjá fyrir mér að eftir um ár í rekstri myndi ég gefa boltann yfir á annan aðila. Núna bíð ég bara spennt eftir því að nýr framkvæmdastjóri mæti á svæðið,“ segir Heiður, en ráðningu nýs framkvæmdastjóra hefur seinkað sökum COVID. Ráðgert er þó að gengið verði frá ráðningu á næstu vikum.

„Það er lokað hjá okkur núna, en um leið og opnar að nýju verður áfram, opið alla daga og lengur um helgar. Við sáum tækifæri í því að bjóða Íslendinga velkomna til okkar í vetur en svo hefur staðan heldur betur breyst,“ segir Heiður.

„Það sem hefur aftur á móti gerst er að heimamenn hafa tekið staðnum gríðarlega vel og því ber að fagna. Árskortshafar á heimamarkaði eru að nálgast þúsund og það munar vissulega um það.  Vonum að heimamenn verði duglegir að láta sjá sig í vetur þegar opnar að nýju og sjái gjafakortin frá okkur sem góðan kost í jólapakkann.“

Byggir áfram upp eigið fyrirtæki

Fram undan hjá Heiði er áframhaldandi uppbygging fyrirtækisins Austurfarar sem er í hennar eigu. Fyrirtækið var sett á laggirnar árið 2011.

„Þá var þetta í grunninn ferðaskrifstofa sem var auk þess í öðrum tengdum verkefnum. Við vorum að selja ferðir um Austurland. Áherslurnar hafa breyst og byggir fyrirtækið nú á heilsárs tjaldstæði og upplýsingamiðstöð ásamt því að vinna meðal annars markaðsverkefni með sveitarfélaginu og þjónustuaðilunum í bænum í gegnum Þjónustusamfélagið á Héraði. Þess utan er margt á teikniborðinu sem ég bíð spennt eftir að koma í framkvæmd,“ segir Heiður.

„Ég er mikill frumkvöðull í eðli mínu og því vissi ég að hlutdeild mín að Vök Baths kæmi til með að vera tímabundin. Ég sá fyrir mér að taka þátt í því koma þessu af stað og fá þannig að setja minn svip á verkefnið. Eftir ár í rekstri taldi ég mig vera búin að gera það sem ég ætlaði mér og því væri upplagt fyrir nýjan aðila að koma inn. Þrátt fyrir veiruna hefur uppbyggingin gengið vel og fólk virkilega ánægt með hvernig til hefur tekist. Nú fer ég aftur í frumkvöðlagírinn, sem er alltaf jafn spennandi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.