Hefði verið óskandi að ekki hefði þurft óveðrið til

Formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi segir ánægjulegt að til standi að flýta fyrir uppbyggingu ýmissa innviða í fjórðungnum þótt óskandi hefði verið að ekki hefði þurft óveðrið í desember til að vekja fólk.

Ríkisstjórn Íslands kynnti í morgun aðgerðaáætlun um uppbyggingu innviða næstu 10 árin. Tillögurnar koma í kjölfar skipan aðgerðahóps sem ríkisstjórn Íslands skipaði eftir óveðrið í desember. Snjóflóðin á Vestfjörðum um miðjan janúar höfðu einnig áhrif á vinnuna.

Á listanum eru 540 aðgerðir, þar af 194 nýjar og 40 aðrar sem flýtt er frá fyrirliggjandi aðgerðum. Kostnaður við verkin er áætlaður um 900 milljarðar. Þá er 27 milljörðum veitt til að flýta verkefnum, þar af 15 milljörðum í að flýta framkvæmdum við ofanflóðavarnir á Seyðisfirði, Eskifirði og Norðfirði. Tólf milljörðum er varið til að flýta lagningu raflína í jörð og annarrar eflingar dreifikerfis raforku. Þá er gerð ráð fyrir átaki í uppbyggingu varaaflstöðva um land allt.

„Það er gleðilegt að búið sé að ákveða að flýta jarðstrengjum og varaafli,“ segir Einar Már Sigurðarson, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Við vinnuna var óskað eftir greinargerðum frá landshlutasamtökum sveitarfélaga. Í greinargerð Sambands sveitarfélaga á Austurlandi er meðal annars farið yfir varaafl á Austurlandi. Þar kemur fram að engar varaaflstöðvar séu á Eskifirði, Stöðvarfirði, Breiðdal og Djúpavogi auk þess sem það sé takmarkað á Seyðisfirði. Þá er bent á einstaka staði eins og hjúkrunarheimilið á Egilsstöðum, vatnsveitur og fjarskiptakerfi.

„Óveðrið í desember virðist hafa vakið fólk en það hefði verið óskandi að það hefði ekki þurft til að menn áttuðu sig á að innviðir væru víða veikir. Þarna er verið að vinna upp gamlar syndir.“

Einar kveðst þó fagna því að áætlunin sé komin fram. „Þetta hefur tekið ótrúlega skamman tíma miðað við það sem áður hefur sést hjá ríkinu. Það hefur verið unnið ötullega að málinu eftir að augu manna opnuðust.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.