„Hef aldrei átt eins notalega og góða sængurlegu áður“

Fyrsta barnið sem fæddist á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað í ár var myndarlegur drengur sem kom í heiminn þann 3. janúar. Foreldrar hans eru þau Erla Björk Jónsdóttir og Haukur Dór Kjartansson, búsett á Reyðarfirði.

 

„Drengurinn var tekinn með keisara og var 14 merkur og 52 sentimetrar. Allt gekk vel og það var yndislegt að dvelja á sjúkrahúsinu. Við upplifðum algjöra fagmennsku af læknum og hjukrunarfólki. Ég hef aldrei átt eins notalega og góða sængurlegu áður,“ segir Erla Björk. 


Árið 2017 var óvanalega rólegt
Jónína Salný Guðmundsdóttir, ljósmóðir segir hafa verið óvenju rólegt á fæðingardeildinni um hátíðarnar. „Það fæddist bara ekki barn frá fyrripart desembermánaðar og þar til litli drengurinn kom í heiminn. Árið 2017 var reyndar óvenju rólegt í heild sinni hjá okkur, það voru um 20-25 færri fæðingar en á vanalega.“

Aðspurð að því hvort hún hafi áhyggjur að þeirri þróun segir hún hlæjandi: „Jú, ég hef miklar áhyggur af fækkun fæðinga. Reyndar fæddust færri börn á landsvísu árið 2017 en undanfarin ár og einnig atvikaðist það þannig hjá okkur að við þurfum að vísa konum annað í sérhæfðari þjónustu, það var óvanalega mikið um slíkt þetta ár.“

Árið 2018 fer hins vegar vel af stað og fædd eru þrjú börn það sem af er janúarmánuði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar